Þinglýstum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 21% í júlí frá fyrri mánuði og jókst veltan um 17,4%.

Alls voru 559 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í júlí og nam heildarveltan 19,4 milljörðum króna. Í júní var 462 kaupsamningum þinglýst og var veltan 16,5 milljarðar króna.

Meðalupphæð á hvern kaupsamning í júlí var 34,6 milljónir en 35,8 milljónir í júní.

Nýliðinn júlímánuður er líka hagstæður þegar hann er borinn saman við sama mánuð í fyrra. Þegar mánuðirnir tveir eru bornir saman fjölgar kaupsamningum um 18,9% og velta eykst um 43,5%. Í júlí 2012 var þinglýst 470 kaupsamningum, velta nam 13,5 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 28,8 milljónir króna.