Eik fasteignafélag hefur undirritað kaupsamning um kaup á öllu útgefnu hlutafé Heimshótela en umsamið kaupverð er 3,6 milljarðar króna.

Þann 14. október sl. var tilkynnt að kauptilboð hefði verið undirritað en ekki var gefið upp hvert kaupverðið væri. Það var sagt vera trúnaðarmál og gæti tekið breytingum eftir því hvert endanlegt kaupandlag verði í kaupsamningi.

Kaupverðið miðast við að við afhendingu sé félagið og Hótel 1919 ehf. skuldlaus og að til staðar séu í félaginu 110 m.kr. sem munu nýtast til betrumbóta á hótelinu. Kaupsamningurinn er háður fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, Seðlabanka Íslands, þar sem seljandi er erlendur aðili, og Rezidor Hotels ApS.

Fasteignirnar sem um ræðir eru alls tæpir 6 þúsund fermetrar og staðsettar í hjarta Reykjavíkur. Fasteigninar eru eru Pósthússtræti 2, Tryggvagata 28 og Hafnarstræti 9-11 í Reykjavík. Allt hlutafé í Hóteli 1919 ehf., sem er 100% í eigu Heimshótela ehf., er hluti af kaupverðinu. Hótel 1919 ehf. er með langtímarekstrarsamning við alþjóðlegu hótelkeðjuna Rezidor Hotels ApS um rekstur hótelsins undir nafni Radisson Blu. Rekstrarsamningurinn felur það í sér að Rezidor Hotels stýrir og hefur eftirlit með rekstri hótelsins gegn tiltekinni þóknun en hagnaður félagsins rennur að öðru leyti til Eikar. Einnig kemur fram að rekstrarsamningur sem þessi er lítt þekktur meðal fasteignaeigenda á Íslandi en algengt erlendis.