Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir í samtali við Fréttablaðið að það komi til greina að kaupa lista með nöfnum einstaklinga sem tengjast skattaskjólum. Hún sé mikill talsmaður þess að uppræta skattsvik.

Skattrannsóknarstjóra hefur verið boðið að kaupa lista með nöfnum hundurða einstaklinga sem eiga eignir í skattaskjólum erlendis, og hefur falið fjármálaráðuneytinu að taka ákvörðun um kaupin.

Pétur Blöndal, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir hins vegar að það sé siðferðilegt álitamál hvort ríkisvaldið eigi að verðlauna þjófnað á móti því að menn séu að svíkja undan skatti. „Væntanlega eru þessi gögn sem Skattrannsóknarstjóra eru boðin til kaups stolin, annars væri ekki þess mikla leynd yfir þessu öllu. Ég er á móti þjófnaði en ég er líka á móti skattsvikum. Þarna rekast á margar siðferðilegar spurningar, annars vegar um siðferði þess að kaupa af þjófum og hins vegar siðferði þess að brjóta skattalög,“ segir Pétur í samtali við Fréttablaðið.