Að sögn Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, er þörf á róttækum aðgerðum til að auka aðsókn í kennaranám og bæta starfsumhverfi kennara. Lilja leggur til breytingar á námsfyrirkomulaginu sem myndu fela það í sér að starfsnám kennara á fimmta ári verði launað. Auk þess muni Lánasjóður íslenskra námsmanna greiða sértæka styrki til kennaranema. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Lilja segir að hún telji þetta fyrirkomulag ekki fela í sér mismunun gagnvart nemendum í öðrum greinum. Hún bendir á að Norðmenn hafi farið svipaða leið með góðum árangri. Að hennar sögn er stefnt á að lagafrumvarp um efnið verði tilbúið næsta haust. Auk þess vinni aðgerðahópur sem Lilja skipaði nýlega, að því að bæta almennt starfsumhverfi kennara.

„Það er alveg ljóst að þróunin undanfarin ár er ískyggileg. Aðsókn í kennaranám hefur verið að minnka og þótt við höfum séð vísbendingar um smávægilega aukningu í námið á vorönn í fyrra þá er ljóst að fjöldi brautskráðra kennara er ekki nægur til þess að mæta nýliðun á öllum skólastigum. Auk þess er brottfall úr náminu mikið og námsframvinda kennaranema hæg. Við erum að horfa fram á kennaraskort og það er grafalvarlegt mál,“ er haft eftir Lilju.

Nýlegar tölur Hagstofu um hækkandi hlutfall leiðbeinenda í grunnskólum bendir til þess að kennaraskortur sé þegar hafinn. Samkvæmt ársskýrslu undanþágunefndar grunnskóla, fyrir skólaárið 2017 til 2018, voru 434 umsóknir um undanþágu til þess að kenna í grunnskólum án tilskilinna leyfa teknar til afgreiðslu nefndarinnar. Þar að auki er meðalaldur starfandi kennara hár og útlit fyrir að margir reynslumiklir kennarar hverfi brátt frá kennslu sökum aldurs.