Davíð Ólafur Ingimarsson tók formlega við sem fjármálastjóri GreenQloud 1. júlí. Aðspurður segir Davíð nýja starfið leggjast mjög vel í sig. „Ég hlakka til að breyta til,“ segir Davíð. Hann mun þó eitthvað starfa áfram hjá Landsvirkjun í sumar.

Davíð er með B.Sc. og M.Sc. gráður í hagfræði auk M.Sc. gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands. Einnig er hann löggiltur verðbréfamiðlari. Davíð fékk árið 2003 fyrstu verðlaun fyrir bestu viðskiptahugmynd í samkeppni háskólans sem nú heitir Gulleggið. Hugmyndin gekk út á það að stofna úrvinnslufyrirtæki sem fullvinnur ál á Íslandi. Davíðhlaut einnig rannsóknarstyrk þegar hann vann M.Sc. rannsóknarverkefnið sitt og fór til Ástralíu og Japans til að rannsaka ál- og raforkuiðnaðinn.

Frá árinu 2007 hefur Davíð starfað hjá Landsvirkjun , nú síðast sem yfirmaður sjóðastýringar og þar áður sem yfirmaður lánamála þar sem hann sá um fjármögnun bæði á innlendum og erlendum markaði. Síðan 2006 hefur Davíð einnig starfað sem stundakennari við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og hefur kennt fyrst og fremst hagnýta stærðfræði. Áður starfaði Davíð sem hagfræðingur hjá sjávarútvegsráðuneytinu í þrjú ár.

Láta gott af sér leiða

Davíð á son á níunda ári. Í frístundum sínum stundar hann líkamsrækt og útivist. Einnig hefur hann unnið að skólamálum í frítíma sínum, meðal annars með því að stofna fyrirtækið Dúxinn ehf. ásamt Bjarna Ingimar Júlíussyni sem starfar einnig hjá GreenQloud. Dúxinn ehf. hefur það markmið að breyta kennsluháttum á Íslandi með því að gera margmiðlunarkennslubækur fyrir spjaldtölvur. Davíðstefnir að fyrstu útgáfu í haust og hafa Háskólinn og samfélagssjóðir styrkt fyrstu útgáfuna. „Mér finnst gallinn við hefðbundnar kennslubækur vera að það er ekki hægt að hafa þær of ýtarlegar, ef dæmin eru með miklum útskýringum eru þær svo þungar. Kennsluhættir í dag eru þannig að nemendur eru hvattir til að fara inn á Khan Academy eða YouTube og skoða myndbönd, en snilldin er að hafa þetta á sömu blaðsíðunni. Ef þú skilur ekki dæmið geturðu ýtt á það og fengið ýtarlegri upplýsingar og ef þú skilur þær ekki kemur upp myndbandsklippa sem útskýrir dæmið,“ segir Davíð.