„Þessu hefur verið mjög vel tekið,“ segir Bragi Þór Antoníusson, markaðsstjóri Elko, sem verður með „svartan fössara“ 24. nóvember, þar sem fólki gefst kostur á að kaupa vörur á mun lægra verði en gengur og gerist. Fyrirmyndin er bandarísk, en þar markar Black Friday upphaf jólaverslunarinnar, strax að lokinni þakkargjörðarhátíðinni. Bragi Þór segir undirbúning fyrir daginn hafa tekið marga mánuði, þar sem Elko semur við birgja um að lækka verð allverulega fyrir þennan dag. „Við ætlum að vera með jólaáhersluvörurnar okkar á svörtu fössara-tilboði og hvetjum fólk til að ganga snemma frá jólainnkaupunum svo það geti notið aðventunnar betur. Við verðum tilbúin með jólagjafalista og -ráðleggingar þannig að þetta verður dálítið þjófstart á jólin,“ segir Bragi Þór.

„Hann segir að keppinautar Elko séu raftækjaverslanir erlendis til jafns við innlendar verslanir. „Alveg klárlega. Þegar við stillum af verðin hjá okkur horfum við á það sem gengur og gerist í netverslunum á Norðurlöndunum og hjá risunum, Amazon og eBay. Við erum mjög meðvituð um það og lítum ekki bara á innlenda aðila í samkeppni um ákveðnar vörur. Það er horft á nákvæmlega það sem neytandinn getur keypt, hvar og hvernig sem er.“

Bragi Þór segir að samkeppnin við Costco sé aðallega í nokkrum vörunúmerum. „Hvað Costo varðar þá eru þeir með raftæki og mesta úrvalið í sjónvörpum en svo með eina og eina uppþvottavél, einn ísskáp og eitthvað svoleiðis. Við finnum samkeppni við þá aðallega í umræðunni. Þeir koma inn á markaðinn með þá ímynd að vera lang- ódýrastir en okkar tilfinning er að þeir séu það alls ekki og bjóða oft vörur sem við erum hætt að selja eða hafa farið gegnum útsölur. Við höfum klára aðgreiningu þar því við bjóðum nýjar vörur um leið og þær eru fáanlegar og margfalt meira vöruúrval í öllum vöruflokkum. Auðvitað eru þeir þarna og við vitum af þeim en teljum okkur vel í stakk búna til að taka á því. Við sjáum að við erum að keppast um einhverja fimmhundruðkalla til eða frá, með fyrirvara um að þeir eru klárlega með einstakar vörur sem eru seldar á mjög lágu verði – en við teljum að það séu beitur. Við erum auðvitað bundin af því að geta ekki farið undir kostnaðarverð,“ segir Bragi Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .