Vestfirska fyrirtækið Kerecis hefur verið að gera það gott upp á síðkastið. Fyrirtækið var valið Frumkvöðull ársins hjá Viðskiptablaðinu árið 2015 og síðan þá hefur leið þess einungis legið upp á við og meðal annars inn á Bandaríkjamarkað.  Fyrirtækið hlaut nýverið Vaxtasprotann árið 2017 og er á nýbirtum lista tímaritsins Podiatry Today yfir 10 helstu uppgötvanir í sárageiranum. Kerecis er að koma sér fyrir á Bandaríkjamarkaði og stefnir nú á Asíumarkað á næstu misserum.

„Við erum að leggja megin áherslu á Bandaríkjamarkað og þetta er mest lesna blaðið í sárageiranum þar hjá læknum sem eru að fást við sykursýkissár. Þannig að það staðfestir að við erum komin á kortið sem ein af leiðandi og mest vaxandi lausnum í þeim geira,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Kerecis.

„Við byrjuðum að selja í Bandaríkjunum í ársbyrjun 2016. Um mitt síðasta ár vorum við komnir með endurgreiðslu hjá Medicare í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Allir sem eru eldri en 65 ára eru tryggðir þar og þeir sem eru með þessi sár eru oftast eldri en 65 ára,“ segir Guðmundur. „Sala í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi á þessu ári var meiri en allt árið í fyrra. Við munum fjórfalda söluna þar á þessu ári,“ bætir hann við.

„Við erum með fjóra sölumenn sem eru að selja vöruna okkar til sjúkrahúsa í Bandaríkjunum og 20 umboðssölumenn. Við erum að gefa út skuldabréf með breytirétti, sem fer í að fjármagna fjölgun okkar eigin sölumanna upp í 10 og ætlum svo í hlutafjárútboð í lok næsta árs,“ segir hann. „Við gerum ráð fyrir að skuldabréfið verði 300 – 500 mkr. að stærð og erum að byrja kynningu á því,“ bætir hann við.

Asíumarkaður í augnsýn

Nýverið var greint frá því að vörur fyrirtækisins yrðu einnig seldar í Asíu, í Kóreu, Taívan og Tælandi. Lyfjafyrirtækið Alvogen mun sjá um söluna á vörum Kerecis í þeim löndum. „Þetta fer í sölu á næstu misserum,“ segir Guðmundur. Hann segir að mikil virðing sé borin fyrir hafinu og öllu sem úr því kemur í þessum löndum og telur að sóknin á Asíumarkað muni skila góðum árangri. Guðmundur bendir þó á að fyrirtækið sé það fyrsta sem markaðssetur slíka vöru í þessum löndum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Forstjóri HS Orku ræðir um nauðsyn þess að hugsa fram í tímann til að hafa tiltekið magn af raforku til reiðu.
  • Umfjöllun um uppbyggingu á Valssvæðinu.
  • Krónan hefur reynst mörgum íslenskum fyrirtækjum þungur baggi.
  • Markaðsvirði allra fasteigna stóru sendiráðanna þriggja hér á landi er áætlað um 6,4 milljarðar króna.
  • Ítarlegt viðtal við Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar.
  • Menntatæknisprotinn Flow Education þróar nýja vöru sem gæti breytt því hvernig kennarar og einstaklingar nálgast kennslu.
  • Rætt er við Elvar Inga Þorsteinsson, sem tók nýlega við störfum hjá Síldarvinnslunni í Neskaupsstað.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um Þorstein Víglundsson.
  • Óðinn skrifar um hagræna kosti syndarinnar.