Alþýðusamband Íslands segja að lögbundnar vísitöluhækkanir sem miðað er við til að mynda í skattkerfinu leiða kerfisbundið til aukins tekjuójafnaðar. Þannig hafi persónuafslátturinn hækkað um 1,9% um áramótin meðan tekjumörk í efra skattþrepi hafi hækkað um 7,1% sem þeir segja vera misræmi sem auki ráðstöfunartekjur fólks mismikið eftir tekjustigi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tók í gildi um áramótin hækkun á hvort tveggja viðmiðunum persónuafsláttar og skattþrepa, en fyrrnefnda hækkunin miðast við vísitölu neysluverðs en sú síðarnefnda miðast við launavísitölu.

Bendir ASÍ að þróun persónuafsláttar hafi meiri áhrif á skattbyrði eftir því sem tekjurnar séu lægri og segja að líta megi á skattleysismörkin sem fyrsta þrep tekjuskattkerfisins. Líkt og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins skilgreinir ASÍ hugtakið skattbyrði sem samspil bóta og tekjuskatts í tekjum einstaklinga, en ekki áhrif skatta eingöngu.

„Tekjumörk í efra skattþrepi hafa hins vegar einungis áhrif á skattbyrði tekjuhærri hópa,“ segir á vef Alþýðusambandsins. „Þannig má segja að tekjumörkin í fyrsta þrepi (skattleysismörkin) hafi um áramót hækkað úr 143.224 krónum á mánuði í kr. 145.899 eða um 1,9% á sama tíma og tekjumörkin í efra þrepi hækkuðu úr 834.707 kr. í 893.713 kr. eða um 7,1%.“

Hátekjufólk fái 78 þúsund krónur meðan aðrir fái 12 þúsund

Segir ASÍ að þessi breyting valdi því að ráðstöfunartekjur hátekjufólks aukist um 78.000 krónur meðan lág- og millitekjufólk fái tæplega 12 þúsund króna aukningu sinna ráðstöfunartekna.

„Þannig lækkaði sem dæmi staðgreiddur tekjuskattur og útsvar hjá einstaklingi með 350.000 krónur í mánaðarlaun um áramótin úr 71.211 krónum á mánuði í kr. 70.223 krónur og ráðstöfunartekjur þessa einstaklings jukust þannig um 988 krónur á mánuði eða 11.800 krónur á ári sem samsvarar 0,3% aukningu ráðstöfunartekna,“ segir í umfjöllun ASÍ.

„Ef litið er á hag þeirra sem eru með tekjur yfir efri tekjumörkunum skattkerfisins, þ.e. yfir 893.713 kr.,lækkar staðgreiddur tekjuskattur og útsvar hins vegar mun meira hjá þeim eða um 6.476 krónur á mánuði. Ráðstöfunartekjur þeirra hækka því um ríflega 77.700 krónur á ári, sem samsvarar t.a.m. 0,9% aukningu ráðstöfunartekna hjá einstaklingi sem hefur 1.000.000 kr. mánaðarlaun.