Kettir hafa lengi leikið stórt hlutverk hjá Forlaginu. Kötturinn Randver var lengi vel titlaður stjórnarformaður Forlagsins, en hann kvaddi jarðvistina fyrr á þessu ári, saddur lífdaga tuttuguogeins árs gamall. Þróunarstjóri Forlagsins, kötturinn Nói, er hins vegar í fullu fjöri. Egill Örn Jóhannsson, sem rætt var við í Viðskiptablaðinu í vikunni, segir kettina líklega eina aðalástæðu þess að Forlagið sé með um 30.000 fylgjendur á Facebook – miklu fleiri en margalt stærri bókaútgáfur á Norðurlöndunum.

„Kettir hafa fylgt okkur alveg frá upphafi – alveg frá því að afi gaf út bækur í Iðunni fyrir meira en 50 árum síðan. Þá notaði hann iðulega ketti í blaðaauglýsingum og setti þannig kött við hliðina á Öldinni okkar eða Alistair MacLean. Fljótlega eftir að við byrjuðum á Bræðraborgarstígnum árið 2001 flutti Randver niður af þriðju hæðinni og inn á skrifstofuna. Við titluðum hann samstundis stjórnarformann Forlagsins, þá JPV. Við trúum því að dýrunum fylgi gæfa og þannig má segja að kettirnir hafi svolítið orðið táknmynd forlagsins enda verið áberandi í öllu okkar starfi,“ segir Egill Örn.

Það er kannski dálítil staðalímynd en það er eitthvað mjög „bókalegt“ við ketti. Þetta eru rólegar verur sem vilja hafa hlutina í röð og reglu – eitthvað sem maður tengir kannski við bókalestur og -útgáfu.

„Ketti fylgir ólýsanleg kyrrð og ró, sem er ekkert ósvipað því og gerist við lestur góðrar bókar. Maður nær nautnar- og kyrrðarástandi sem maður nær ekki með neinni annarri afþreyingu. Það gerir það að verkum að bókin deyr aldrei út – hvað sem á dynur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .