Kanadíska matvælafyrirtækið High Liner Foods tapaði 3 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Það jafngildir rúmum 370 milljónum íslenskra króna. Til samanburðar hagnaðist fyrirtækið um 1,7 milljónir dala árið á undan. Henry Demone, forstjóri fyrirtækisins, segir ástæðulaust að hafa áhyggjur af tapinu, það skrifist á einskiptikostnað í tengslum við kaup á eignum Icelandic Group í Bandaríkjunum og í Kína auk kaupa á matvælafyrirtækinu Viking Seafood.

Félagið innsiglaði kaupin í desember í fyrra og greiddi fyrir þær rúmar 230 milljónir dala, jafnvirði 27 milljarða króna.

Forstjórinn segir í samtali við kanadíska blaðið The Chronicle Herald kaupin af hinum góða, þau muni styrkja reksturinn til lengri tíma litið.

Að einskiptikostnaði undanskildum nam hagnaður fyrirtækisins 5,7 milljónum dala, jafnvirði rúmra 700 milljóna króna. Það er tæplega 73% aukning á milli ára.

Þá námu tekjur 668,6 milljónum dala í fyrra samanborið við 584,7 milljónir í hittifyrra.