Íslendingar keyptu fasteignir á Spáni fyrir rúmar 8,2 milljónir evra á síðasta ári eða um 1,2 milljarða króna hjá Íslandsdeild spænsku fasteignasölunnar Medland. Þetta er lítilsháttar aukning frá árinu 2017 þegar sala á fasteignum var með mesta móti eða um 8 milljónir evra. Alls hafa Íslendingar keypt fasteignir á Spáni fyrir um 16,2 milljónir evra eða um 2,2 milljarða króna hjá Medland síðustu tvö ár.

Steina Jónsdóttir, markaðsstjóri Íslandsdeildar fasteignasölunnar Medland, segir að salan hafi verið mjög góð síðustu tvö ár og áhugi fólks á fasteignum á Spáni sé enn umtalsverður. Medland verður með sérstaka kynningu á fasteignum á Spáni nú um helgina, bæði laugardag og sunnudag á Centerhotel Plaza frá kl. 10-17. Fyrirlestrar um kaupferlið á Spáni verða haldnir báða dagana eftir þörfum að sögn Steinu og þar má nálgast bækling þar sem skoða má úrvalið og láta sig dreyma.

,,Um leið og gjaldeyrishöftin voru afnumin í ársbyrjun 2017 byrjaði boltinn að rúlla og það er búið að vera nóg að gera síðan þá. Við komum til Íslands í það minnsta þrisvar sinnum á ári og stöndum þá fyrir kynningum sem þessum eða stærri ráðstefnum þar sem spænskir byggingaraðilar slást í för með okkur. Það er án efa mikill áhugi meðal landans og fullt útúr dyrum í hvert einasta sinn. Við erum bjartsýn, þetta verður skemmtilegt ár." segir Steina.

Íslendingar hafa verið í fremstu röð hjá Medland síðustu tvö ár en stofan er með mikið af viðskiptavinum frá Norðurlöndunum og norður- og mið Evrópu.

,,Íslendingar sækja ýmist í íbúðir í góðum kjörnum með aðgangi að sundlaug eða falleg einbýli með einkasundlaug. Vinsælustu eignirnar eru annars vegar um 80 fermetra íbúðir og hins vegar 120-130 fermetra einbýlishús. Staðsetningin við Miðjarðarhafið býður upp á meiri lífsgæði og það er auðvelt að ferðast á milli Íslands og Spánar. Fólk sækir í birtuna og veðurblíðuna og ekki spillir verðlagið fyrir," segir Steina.

„Flestir viðskiptavina okkar, er fólk sem er að bæta við sig eign. Við erum með frekar fáa sem eru að kaupa til þess að flytjast alfarið til Spánar en auðvitað eru einhver dæmi um það."

Medland er með mikið úrval fasteigna á austurströnd Spánar og að sögn Steinu hefur framboðið aukist verulega á undanförnum mánuðum. Verð á ódýrustu eignum til sölu er um 12 milljónir króna en finna má lúxus eignir fyrir allt að 225 milljónir króna.