Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins jók nýlega við hlut sinn í Dohop með því að kaupa 19.200 hluti á genginu 521 krónu. Það gerir rétt rúmlega 10 milljónir króna. Heildarhlutafé félagsins eru 2.160.633 hlutir, og er því um tæplega 0,89% í félaginu að ræða. Heildarmarkaðsvirðið er miðað við þetta gengi 1.125 milljónir króna.

Var ósk sjóðsins um breytinguna samþykkt af stjórn sjóðsins í september síðastliðinum, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma sótti félagið sér 100 milljón króna aukið hlutafé í sumar.

Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop sagði þá nýja vöru félagsins, Dohop Connect vera á gífurlegri siglingu.„Hún er langt, langt á undan þeim áætlunum sem við gerðum,“ sagði Davíð, en flugleitarvefurinn velti um 305 milljónum króna árið 2016.

Í bréfi til fyrirtækjaskrár um samþykkt stjórnarinnar er þess óskað að fundargerð stjórnar verði ekki gerð opinber. „Síðast þegar við sendum inn fundargerð til upplýsinga var það gert opinbert,“ segir í bréfinu. „Við vissum ekki af þessu verklagi og einn fjölmiðill gerði frétt út frá því.“