Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, telur að ef Bretar gengju úr hinum svokallaða sameinaða markaði Evrópusambandsríkja, sem Ísland á aðild að í gegnum EES-samninginn, gæti það komið sér afar illa fyrir Breta. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg um málið.

Khan var kjörinn borgarstjóri Lundúna fyrr á þessu ári fyrir breska Verkamannaflokkinn.

„Ef að við myndum yfirgefa sameinaða markaðinn án þess að ná góðum samningi við Evrópusambandið, yrðu niðurstöðurnar hörmulegar fyrir fyrirtæki í Bretlandi,“ er haft eftir Khan í fréttinni.

Nýlega fjallaði dagblaðið Times um að fjármálaráðuneyti Breta búi sig undir það versta og jafnvel að breska hagkerfið myndi minnka um 9,5% á næstu fimmtán árum.