Hagtölur fyrir júlí í Kína sýna greinileg áhrif bandarískra tolla, bæði þeirra sem þegar hafa verið lagðir á, og þeirra sem Trump hefur hótað til viðbótar, á hagkerfið, samkvæmt frétt Wall Street Journal .

Opinberar tölur um verksmiðjur og þjónustuveitendur í Kína, sem birtar voru í morgun, benda til fallandi eftirspurnar. Fyrirtæki sem höfðu verið að auka framleiðslu sína til að ná sem mestum vörum til Bandaríkjanna áður en tollarnir skyllu á, eru nú líklega farin að draga úr framleiðslu og fjárfestingu.

Ríkisstjórn Donalds Trump lagði fyrr í þessum mánuði 25% tolla á 34 milljarða dollara virði af kínverskum innflutningi, en Kínverjar svöruðu í sömu mynt. Trump hefur hótað enn frekari tollum, sem hefur gert viðskiptalífið áhyggjufullt.

Búist var við að til áhrifanna færi að segja nú á seinni helmingi ársins, en tölurnar eru ögn verri en hagfræðingar höfðu spáð.