Olíuútflutningur Kína hefur náð sögulegum hæðum, þegar olíuhreinsistöðvar  fóru að flytja út umframframleiðslu til að létta á birgðastöðvum sínum.

42% aukning milli mánaða

Í júnímánuði flutti Kína út 1,1 milljón tonn af olíu, eða sem nemur 269.000 tunnum á dag. Þetta er 42% meira magn en mánuðinn á undan og meira en tvöfallt það magn sem flutt var út fyrir ári síðan.

Olíuframleiðsla í landinu hefur farið framúr eftirspurninni sem haldist hefur stöðug. Kemur þetta að hluta til vegna breyttra reglugerða, en stjórnvöld hafa leyft meira en tvöfallt meiri útflutning olíu en áður.

Einnig leyfðu stjórnvöld í fyrsta skipti á síðasta ári innflutning á hráolíu til olíuvinnslu innanlands, í stað þess að þurfa að kaupa dýrari hráolíu innanlands frá ríkisreknum olíufyrirtækjum. Það hefur gert það að verkum að stórar ríkisreknar olíuhreinsistöðvar hafa horft fram á meiri samkeppni innanlands, svo þær hafa selt meira úr landi.