Kínversk stjórnvöld tilkynntu í dag að ríkið muni segja upp hálfri milljón starfsmanna í kola- og stálvinnslu á þessu ári. Aðgerðin miðar að aukinni hagræðingu í kínverskum ríkisfjármálum. Þessu gerir AFP fréttastofan skil í frétt sinni.

Mannauðsmálaráðherra Kína, Yin Weimin, sagði að starfsmönnunum yrði boðið uppsagnarpakka eða sá kostur að fara snemma á eftirlaun.

Kínverjar framleiða ríflega helming af stáli í heiminum, en dregið hefur úr eftirspurn eftir stáli á síðustu misserum, sem hefur leitt til offramleiðslu af hálfu Kína.

Stjórnvöld sögðu upp 726 þúsund starfsmönnum í fyrra og tilkynntu þá að samtals yrði sagt upp 1,8 milljónum starfsmanna á næstu árum. Ráðherrann sagði að ferlið hafi gengið vel fyrir sig í fyrra og að það hafi ekki verið neinir árekstrar eða vandamál sem hafi komið upp. Þó mótmæltu hundruðir stálverkamanna í Hebei héraði uppsögnunum í apríl í fyrra.