Kínverskir ferðamenn vörðu hvað hæstum fjárhæðum á mann á dag hér á landi á síðasta ári. Svo virðist að minnsta kosti vera þegar litið er til þeirra þjóða sem skilja hér eftir mest heildarverðmæti. Þá eru útgjöld Bandaríkjamanna, sem eru um þriðjungur allra ferðamanna hér á landi, einnig yfir meðaltali. Til samanburðar voru Kínverjar 3,9% af heildarfjölda ferðamanna í fyrra en útgjöld þeirra 6,2%. Íslandsbanki segir frá þessu í fréttatilkynningu.

Bandarískir ferðamenn eru því að öllum líkindum þeir sem skila hvað mestum gjaldeyristekjum til landsins á heildina litið. Á móti kemur að kannanir benda til að gestir frá Norður-Ameríku dvelji að meðaltali skemur en aðrir og það veldur því að heildarneysla þeirra er minni sem því nemur í samanburði við aðra. Dvalartími ferðafólks frá Kína, hinum norrænu ríkjunum og Bretlandi er einnig alla jafna styttri en gengur og gerist að jafnaði. Aðrir Evrópubúar dvelja hér lengur.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna sem kynnt verður á Hilton Reykjavík Nordica á fimmtudaginn kl. 08:30. Auk kynningar skýrslunnar munu þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group taka þátt í umræðum á fundinum.