Kína mun flytja inn hrísgrjón frá Bandaríkjunum samkvæmt viðskiptasamningi Landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna og kínverska ríkisins, sem undirritaður var síðastliðinn fimmtudag. Er þetta í fyrsta skipti sem bandarískir bændur fá að flytja út hrísgrjón til Kína. CNN Money greinir frá.

Samningurinn var í bígerð í yfir áratug. Útflutningur á bandarískum hrísgrjónum mun hefjast að lokinni endurskoðun kínverskra embættismanna á framleiðsluaðstöðu bandarískra hrísgrjónabænda.

Þegar Kína varð aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni árið 2001 var innflutningur á bandarískum hrísgrjónum til Kína bannaður vegna strangra samskiptareglna um plágur og sýkla milli landanna tveggja.

Kína er stærsti hrísgrjónaframleiðandi heims en jafnframt stærsti neytandi hrísgrjóna. Vegna mikillar eftirspurnar eftir hrísgrjónum í Kína hafa Kínverjar í auknum mæli flutt inn hrísgrjón til að fæða íbúa landsins, en á síðasta ári voru fimm milljón tonn af hrísgrjónum flutt inn til landsins. Bandaríkin flytja út þrjú til fjögur milljón tonn af hrísgrjónum á ári. Þess má geta að Kína framleiðir tuttugu sinnum meira af hrísgrjónum á ári hverju heldur en Bandaríkin.

Almennt hefur innflutningur á matvöru til Kína aukist undanfarin ár og endurspeglar það erfitt ástand í kínverskum landbúnaði. Fólk á landsbyggðinni er að eldast hratt, uppskera er lág og eyðilegging jarðvegs er talsverð. Mengun og loftslagsbreytingar hafa einnig haft áhrif á framleiðslu.