Tvöfaldur tollur er lagður á föt sem flutt eru inn til Íslands. Annars vegar leggja íslensk yfirvöld á 15% toll en hins vegar leggur Evrópusambandið á verndartoll. Mestur hluti fatnaðar sem fluttur er hingað til lands er framleiddur í Asíu en fluttur inn í gegnum Evrópusambandsríki. Íslendingar eru því nauðbeygðir til að sætta sig við þessa álagningu.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að þetta sé veruleiki sem íslenskir neytendur verði að horfast í augu við. „Og svo búum við við eitt hæsta virðisaukaskattstig í heimi,“ segir Andrés. Hann segist vonast til þess að þegar fríverslunarsamningur við Kína hefur tekið gildi verði hægt að flytja föt inn beint til landsins frá Asíu. „Ef vel tekst til og hægt verður að flytja inn fatnað beint frá Kína þá verða menn lausir við þennan toll,“ segir Andrés.