Kínverjar munu auka vægi sitt úr því að vera 3,8% ferðamanna í að verða 6% hér á landi árið 2020 og 10% árið 2025. Þróunin á heimsvísu bendir þó til að Ísland hljóti þá að vera nokkur eftirbátur heimsmarkaðsins. Þetta segir í skýrslu sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg um áhrif ferðaþjónustu á húsnæðis- og vinnumarkað í Reykjavík.

Kínverskum ferðamönnum hefur fjölgað mjög í heiminum og eru þeir nú fjölmennasti hópur ferðamanna í heiminum og eru tvöfalt fleiri en Bandaríkjamenn sem koma í öðru sæti. Í skýrslunni kemur fram að útgjöld Kínverja til ferðamála hafa nærri fimmfaldast á árabilinu 2005-2012 og eyða þeir mest allra þjóða í ferðaþjónustu. Kínverskir ferðamenn hafa nokkur sérkenni sem gætu haft mikil áhrif komi til þess að hlutdeild þeirra á íslenskum ferðamarkaði aukist.

Þeir ferðast meira í skipulögðum hópum bæði stórum og litlum. Ferðatíminn markast einnig af þeim tíma árs sem þeir vænta þess að eiga frí. Talað er um s.k. „gylltar vikur“ kringum nýja árið sem fellur seint í janúar eða byrjun febrúar annars vegar og þjóðhátíðardaginn sem er í fyrstu viku október. Áhrifin eru þau að eftirspurn eftir ferðum til Íslands gæti aukist mjög utan háannatímans og kæmu gistinætur til með að falla helst á stærri gististöðum sem geta tekið á móti hópum ef um eldra fólk er að ræða en jafnvel að íbúðir þar sem ná má hagkvæmri gistingu fyrir litla hópa sjái aukna eftirspurn. Kínverskir ferðamenn eru einnig þekktir fyrir mikil fjárráð og eyða fúlgum fjár í lúxus vörur og þjónustu. Spurningin er þá hvort Ísland sé nógu aðlaðandi í augum þeirra sem mestu eyða.