Kínversk stjórnvöld sem höfðu ákveðið að setja tolla á Bandaríkin til að svara fyrir að bandarísk stjórnvöld hyggjast setja tolla á innflutning að andvirði 34 milljarða Bandaríkja frá Kína vilja ekki vera fyrri til.

Upphaflega höfðu stjórnvöld í Beijing ætlað sér að láta tollana taka gildi á sama tíma og þeir gera það í Bandaríkjunum. Það er á miðnætti á föstudag, en þar sem klukkan í Kína er 12 klukkutímum á undan klukkunni á austurströnd Bandaríkjanna yrði það til þess að tollarnir tækju gildi um hádegisleytið á morgun fimmtudag í Bandaríkjunum.

Kínverskir ráðamenn höfðu lýst því yfir í morgun að þeir væru ákveðnir að setja tollana á sama dag, 6. júlí, og Bandaríkjamenn, en seinna sama daginn var komið annað hljóð í skrokkinn. „Það eru Bandaríkin sem byrjuðu þetta,“ sagði stjórnarherrann samkvæmt frétt WSJ og sagði kínversk stjórnvöld algerlega tilbúin í átökin.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar síðar sagði þó að „Það væri ljóst að Kína myndi ekki skjóta fyrsta skotinu.“ Það þýðir að ólíkt því sem venjan er hjá kínverskum stjórnvöldum að gildistaka tollana miðist við hefðbundinn heilan vinnudag þá munu þeir taka gildi um hádegið á föstudag í Kína.

Hótar tollum á hundruðir milljarða til viðbótar

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað því að ef Kínverjar svari í sömu mynnt og setji á tolla á Bandaríkin líkt og Bandaríkin muni gera á Kína, muni hann setja tolla á kínverskar vörur að andvirði 400 milljarða dala til viðbótar.

Það samsvarar um 43 þúsund milljörðum íslenskra króna en að vera fyrri til og setja tolla á, á undan Bandaríkjunum yrði þvert á opinbera stefnu stjórnvalda í kommúnistaríkinu, um að landið vilji ekki tollastríð við Bandaríkin.

Þau fyrirtæki í Bandaríkjunum sem líkleg eru til að fara verst út úr fyrstu stigum tollastríðsins væru framleiðendur Jeppa og annarra stærri bíla ásamt bændum, til að mynda þeirra sem rækta sojabaunir.

Júanið fallið í verði

Í Kína yrðu það líklega þau fyrirtæki sem flytja út bílahluti og lækningatæki ýmis konar. Ógnin af tollastríðinu hefur vakið áhyggjur á fjármálamörkuðum víða um heim og hefur jafnvel kínverski gjaldmiðillinn, júanið, fallið í verði.

Bandarísk stjórnvöld hafa löngum haldið því fram að gjaldmiðillinn, sem stjórnvöld hafa haft mikla stjórn á genginu á, hafi verið haldið of lágt, sem gefi kínverskum framleiðendum óeðlilegt samkeppnisforskot.

Viðskiptahalli Bandaríkjanna gagnvart Kína nam 375 milljörðum dala á síðasta ári, sem kemur til bæði vegna fjárfestinga og útflutnings, en Bandaríkin segja ástæðuna fyrir tollunum vera þrýsting á bandarísk fyrirtæki að flytja tækniþekkingu sína til Kína.