Kínverska utanríkisráðuneytið neitar áskökunum embættismanna Bandaríkjastjórnar um að tölvuþrjótar á vegum kínverska hersins hafi nýlega brotist inn í tölvukerfi Pentagon. Þetta er í annað skiptið á aðeins einni viku sem fréttir berast af slíkum innbrotum kínverska hersins, en á sama tíma hafa kínversk yfirvöld tilkynnt að þau hyggist upplýsa Sameinuðu þjóðirnar um útgjöld Kína til hernaðarmála.

Kínverski alþýðuherinn (e. People Liberation Army) stóð á bak við tölvuinnbrot í gagnabanka Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, í síðastliðnum júnímánuði, samkvæmt upplýsingum sem Financial Times hefur eftir ónafngreindum embættismönnum Bandaríkjastjórnar. Pentagon viðurkenndi jafnframt að sökum tölvuinnbrotsins hefði meðal annars þurft að slökkva á tölvukerfinu á skrifstofu Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Stutt er síðan þýska vikuritið Spiegel greindi frá því að kínverski herinn hefði brotist inn í tölvukerfi þýskra stjórnvalda.

Fram kemur í frétt Financial Times að Pentagon hafi lokað fyrir tölvukerfi ráðuneytisins í meira en eina viku á meðan tölvuárásunum stóð. Hins vegar segir einn heimildarmaður blaðsins að gögnin sem hinir meintu kínversku tölvuþrjótar hafi komist yfir séu að öllum líkindum ekki upplýsingar sem flokkist undir að vera leynilegs eðlis.

"Hugsunarháttur Kalda stríðsins"
Kínverski herinn hefur ítrekað hnusað að tölvukerfi Bandaríkjahers - og almennt er talið að Pentagon geri slíkt hið sama - en embættismenn varnarmálaráðuneytisins segja hins vegar að tölvuárásin sem gerð hafi verið í júní hafi vakið upp nýjar áhyggjur á meðal hernaðaryfirvalda sökum stærðar og umfangs hennar: Hættan er sú að Kínverjar komist yfir mikilvægar upplýsingar sem gætu nýst þeim til að rjúfa hluta tölvukerfisins ef til hugsanlegra hernaðarátaka kæmi á milli Bandaríkjanna og Kína í náinni framtíð.

Jiang Yo, embættismaður í kínverska utanríkisráðuneytinu, sagði aftur á móti í gær að stjórnvöld í Peking "neituðu því alfarið" að hafa staðið á bak við slíkar tölvuárásir. "Sumir einstaklingar eru með fráleitar ásakanir gagnvart Kína [...] Þær eru með öllu staðhæfulausar og endurspegla hugsunarhátt sem var ríkjandi á tímum Kalda stríðsins," er haft eftir Yo á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC).

Það berast þó ekki einvörðungu neikvæðar fréttir í tengslum við starfsemi kínverska hersins. Á mánudaginn var greint frá því í erlendum fjölmiðlum að ráðamenn í Peking hefðu samþykkt að veita Sameinuðu þjóðunum upplýsingar um hernaðarútgjöld og umfang vopnaviðskipta Kína, en þarlend stjórnvöld hafa lengi legið undir ámæli - einkum frá Bandaríkjamönnum - um ógagnsæi í þeim efnum, samhliða örri uppbyggingu kínverska heraflans.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.