Vöntun hefur verið á vinnuafli í fiskvinnslum Royal Greenlands á Vestur-Grænlandi. Fyrirtækið hefur gripið til þess ráðs að flytja inn fiskverkafólk frá Kína, að því er fram kemur í frétt í grænlenska sjónvarpinu.

Þar segir að Royal Greenland hafi ráðið 38 Kínverja til starfa í verksmiðjum í þremur bæjum á vesturströndinni, einkum norðan til. Bæirnir sem hér um ræðir eru Maniitsoq, Qasigiannguit og Uummannaq. Atvinnuleyfi fyrir Kínverjana hefur verið fengið hjá opinberum stofnunum. Þar að auki mun fyrirtækið ráða til sín erlent fólk í árstíðarbundin störf. Kínverjarnir búa í starfsmannaíbúðum Royal Greenland og þarf að endurnýja atvinnuleyfi þeirra árlega.

Þessi ráðstöfun hefur mælst misjafnlega fyrir í Grænlandi. Sumir gagnrýnendur spyrja hvort Royal Greenland treysti ekki grænlensku fiskverkafólki til að vinna störf sín með fullnægjandi hætti. Einnig er bent á að á sama tíma og erlent verkafólk sé flutt inn sé atvinnuleysi á suðurhluta Grænlands og á Austur-Grænlandi.