Bandaríkjamenn hafa sett viðskiptaþvinganir á kínverskt fyrirtæki vegna þess að fyrirtækið var sakað um að aðstoða Norðurkóreskan banka flýja viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna.

Sakað um að stunda viðskipti við Norður Kóreu

Fyrirtækið Dandong Hongxiang er sakað um að stunda viðskipti við Norður kóreskan banka, en bankinn er á lista Sameinuðu þjóðanna yfir aðila sem ekki má stunda viðskipti við vegna viðskiptaþvingana.

Þessi ákvörðun er nátengd kjarnorkutilraunum N-Kóreumanna, en hún kemur í kjölfar þess að landið framkvæmdi í mánuðinum sína fimmtu tilraunasprengingu.

Heildsali á iðnaðarbúnaði

Kínversk stjórnvöld rannsaka jafnframt fyrirtækið og stjórnarmenn þess,  en fyrirtækið er heildsali á iðnaðarbúnaði. Ákvörðun bandarískra stjórnvalda þýðir að fyrirtækjum þar í landi er nú meinað að stunda viðskipti við kínverska fyrirtækið og fjóra helstu stjórnarmenn þess.

Fyrir utan stofnanda fyrirtækisins, Ma Xiaohong, þá ná refsiaðgerðirnar einnig til þeirra Zhou Jiahshu, Hong Jinhua og Lou Chuanxu, en þeir eru sakaðir um að brjóta reglur viðskiptabannsins og stunda peningaþvætti.

Studdi við vopnvæðingu Norður Kóreu

Samkvæmt Adam Szubin, sem sér um málefni hryðjuverka og fjármálaeftirlits hjá fjármálaráðuneytinu í Bandaríkjunum þá var fyrirtækið í lykilhlutverki við að styðja við vopnavæðingu Norður Kóreu, og vann í því fyrir hönd norðurkóreska bankans Kwangson Banking Corp.

Segir dómsmálaráðuneytið jafnframt að fyrirtækið og önnur tengd því hafi fengið hundruð milljóna Bandaríkjadala inn á reikninga sína sem þeir hafi beint í gegnum Bandaríkin.

Aukið samstarf Bandaríkjanna og Kína

Í síðustu viku samþykktu kínverski forsætisráðherrann Li Keqiang og Barack Obama Bandaríkjaforseti að vinna nánar saman bæði á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna sem og í að framfylgja refsiaðgerðunum í kjölfar nýjustu og stærstu kjarnorkuvopnatilraunar Norður Kóreu.

Kommúnistaríkið þarf nú að hlýta fimm mismunandi refsiaðgerðum af hálfu Sameinuðu Þjóðanna í kjölfar fyrstu tilraunarinnar sem framkvæmd var árið 2006. Á síðustu mánuðum hefur ríkið einnig framkvæmt tilraunir með eldflaugar og hefur í gegnum árin komið margar tilkynningar frá ríkinu að það stefni á að geta hitt skotmörk í Bandaríkjunum.