Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland tók kipp í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands í morgun, og hækkaði vísitalan um 2,39%. Komst hún í fyrsta sinn síðan 14. september síðastlinn, daginn áður en að Björt framtíð tilkynnti óvænt um stjórnarslit uppúr miðnætti eftir stjórnarfund, uppyfir 1.700 stiga múrinn. Í lok viðskipta þann dag stóð hún í 1709,19 stigum en nú hefur hún náð 1.713,52 stigum. Viðskipti dagsins námu rétt tæplega fjórum milljörðum króna.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði umtalsvert eða um 0,98% í tæplega 11,3 milljarða króna viðskiptum og stendur hún nú í 1.336,62 stigum.

HB Grandi eina sem lækkaði

Eina fyrirtækið sem lækkaði í viðskiptum dagsins var HB Grandi, sem lækkaði um 0,68% niður í 29,30 krónur á hvert bréf í 103 milljón króna viðskiptum.

Mest hækkun var hins vegar á gengi bréfa VÍS, sem hækkaði um 5,77% í 243 milljón króna viðskiptum og stendur gengið bréfa félagsins nú í 11,00 krónum.

Mest velta með bréf TM

Hin tryggingafélögin, Sjóvá og TM hækkuðu einnig töluvert eða hvort um sig yfir 4%, og voru þau í 3. og 4. sæti yfir þau félög sem hækkuðu mest í viðskiptum dagsins. Hækkun Sjóvá nam 4,31% í 464 milljón króna viðskiptum og er það komið i 16,95 krónur hvert bréf.

Jafnframt var langmest velta með bréf TM, eða fyrir 530 milljónir en gengi bréfanna stendur nú í 32,95 krónum eftir 4,19% hækkun. Það félag sem hækkaði þó næst mest var Eik fasteignafélag sem hækkaði um 4,90% í 187 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfanna stendur nú í 10,60 krónum.