*

miðvikudagur, 17. október 2018
Innlent 22. október 2017 14:05

Kísillinn uppseldur

PCC hefur gengið frá samningum um sölu á öllum kísli en verksmiðjan mun framleiða 32 þúsund tonn á ári.

Trausti Hafliðason
Um 560 manns starfa nú við framkvæmdirnar á Bakka.
Aðsend mynd

Stefnt er að því að gangsetja 32 þúsund tonna kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík eftir tvo mánuði. Heildarfjárfestingin nemur um 300 milljónum Bandaríkjadala eða um 34 milljörðum króna miðað við gengið í byrjun þessa árs.

„Við stefnum að því að gangsetja verksmiðjuna um miðjan desember en sú dagsetning er ekki heilög," segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC Bakka Silicon.  „Frá gangsetningu tekur um fjórar til sex vikur að ná fullum afköstum. Ef það verða einhverjar tafir um miðjan desember þá eru komin jól, sem þýðir að við munum ekki gangsetja verksmiðjuna fyrr en um áramótin. Ætli það sé ekki best að orða þetta sem svo að við setjum verksmiðjuna í gang þegar allt er tilbúið. Þó við stefnum að þessu um miðjan desember þá er ómöguleg að gefa upp nákvæma dagsetningu."

Að sögn Hafsteins eru framkvæmdir í fullum gangi núna. „Það eru um bil 560 manns við störf á svæðinu á vegum byggingarverktakans og því til viðbótar eru um 60 starfsmenn PCC Bakka Silicon við störf. Þannig að það er ansi góður hópur að vinna að gangsetningu verksmiðjunnar."

Í þjálfun til Noregs og Kasakstan

Hafsteinn segir að PCC Bakki Silicon muni í heildina ráða 111 starfsmenn. Búið sé að ráða í langflest störf en enn eigi eftir að ráða um 15 manns. Í ágúst greindi fréttastofa RÚV frá því að erfiðlega gengi að ráða iðnaðarmenn. Spurður hvernig það hafi gengið síðustu vikur svarar Hafsteinn: „Það er mjög erfitt að fá iðnaðarmenn og þá er sama hvar á landinu það er. Við erum nú þegar búin að ráða alla rafvirkja. Um þriðjungur þeirra eru Íslendingar en meirihlutinn kemur frá Póllandi. Við erum búin að ráða um helming af vélvirkjum og um helmingar þeirra eru Íslendingar."

Að sögn Hafsteins krefjast sum starfanna í verksmiðjunni þónokkurrar sérhæfingar og því hafa vaktstjórar verið sendir í sjö vikna þjálfun í kísílmálmverksmiðju í Holla í Noregi, sem er skammt frá Þrándheimi. Einnig hafa nokkrir iðnaðarmenn verið sendir í þjálfun til Holla. Þá hefur einnig hópur verið sendur í vikuþjálfun í verksmiðju í Kasakstan, en sú verksmiðja er ekki ósvipuð þeirri sem verið er að byggja við Húsavík.

Selt til Evrópu og Ameríku

Í verksmiðjunni á Bakka er stefnt að því að framleiða 32 þúsund tonn af kísilmálmi á ári. Hafsteinn segir að búið sé að ganga frá sölusamningum á öllum kísli.

„Í grófum dráttum má skipta afurðum okkar í tvennt. Það er annars vegar kísillinn, sem er uppseldur hjá okkur og hins vegar aukaafurðir eins og alls konar ryk. Við erum ekki búin að ganga frá sölunni á rykinu en sá samningur er langt kominn.  Við eigum sem sagt í viðræðum um það núna. Rykið er ekki jafn verðmæt afurð og kísillinn en okkur finnst samt mjög áríðandi að ganga frá samningum um það því þá fer enginn úrgangur úr verksmiðjunni í urðun hérlendis heldur verður allt flutt úr landi og notað í ýmiss konar iðnað."

Hafsteinn segir að um 80% af kíslinum verði seldur til Evrópu og um 15 til 20% til Norður-Ameríku. Hann segir að kísillinn frá PCC Bakka Silicon verði notaður í álblöndur sem og í efnaiðnaði og þá í snyrtivörur, rafeindatækni og ýmislegt annað.

Til þess að knýja 32 þúsund tonna kísilmálmverksmiðju þarf 52 megavött af raforku. Sú raforka mun koma frá Þeistareykjavirkjun. Í verksmiðjunni verða tveir ljósbogaofnar en til samanburðar er einn stór í  verksmiðju United Silicon í Helguvík. Öll leyfi PCC miða við 64 þúsund tonna verksmiðju, sem þýðir að tveimur ofnum yrði bætt við og þá þyrfti verksmiðjan 52 megavött af raforku til viðbótar. Hafsteinn segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um stækkun.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.