Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík var gangsett á sunnudaginn. Kísilmálmur er framleiddur í svokölluðum ljósbogaofnum og setti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ofninn í gang við hátíðlega athöfn en hún tók einnig fyrstu skóflustunguna að verksmiðjunni árið 2014. Aðal verksmiðjuhúsið er 38 metra hátt og um 5.000 fermetrar að stærð, en alls samanstendur verksmiðjan af sjö húsum.

Verksmiðjan mun framleiða 22.900 tonn á ári en hönnun verksmiðjunnar gerir ráð fyrir að hægt verði að bæta við allt að þremur ofnum í viðbót. Ef þau áform ganga eftir mun verksmiðjan framleiða hátt í 100 þúsund tonn á ári og yrði þar með stærsta kísilmálmverksmiðja landsins og ein sú stærsta í heimi.

Kostnaðurinn við fyrsta áfanga verksmiðjunnar var um 12 milljarðar króna en fullbyggð mun hún kosta um 40 milljarða króna. Verksmiðja United Silicon er sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis en verið er að byggja sams konar verksmiðju á Bakka við Húsavík og þá stefnir Thorsil einnig að því að reisa kísilmálmverksmiðju í Helguvík.