Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri Strokks Energy, segir að aðdragandinn að fyrirhugaðri kísilverksmiðju í Þorlákshöfn sé langur. Strokkur hefur nú stofnað félagið ThorSil um verksmiðjuna í samstarfi við kísilvöruframleiðendur í Bandaríkjunum og Kanada.

„Við erum síðustu tvö árin búnir að vinna að því að hér rísi kísilverksmiðja, sérstaklega með tilliti til sólarkísils. Við erum búnir að ræða við alla orkusöluaðila á Íslandi um svona verkefni.”

Eyþór segir að verksmiðjan muni þurfa þau 85 megavött (MW) í fyrsta áfanga sem fáist nettó frá 90 MW orkuveri í Hverahlíð. “Þá erum við að horfa á 50 þúsund tonna framleiðslu á kísilmálmi sem fyrsta áfanga.

Strax í upphafi gerðum við athugun á samkeppnishæfni Íslands í þessu tilliti. Síðan hefur verkefnið þróast og nú erum við að í fyrsta áfanga séum við að framleiða kísilmálm sem nýtist bæði í sólarkísil og líka inn á aðra markaði. Kísilmálmur er m.a. notaður sem íblöndunarefni í áliðnaði og magnesíumiðnaði auk þess sem hann er mikið notaður í tölvuiðnaði.

Í þessu tilfelli erum við að horfa til þess að reisa verksmiðju sem næst orkuverinu. Það er bæði hagkvæmara, einfaldara skipulagslega og umhverfisvænna að hafa raflínuna sem stysta. Þarna verður línan lögð stystu leið frá Hverahlíð niður í Þorlákshöfn. Þá er líka minna orkutap í styttri línu.”

Eyþór segir að ekki sé hægt að gefa upp hverjir samstarfsaðilar Strokks eru fyrr en Orkuveita Reykjavíkur hefur samþykkt að fara í gerð rammasamnings um orkusölu. Ástæðan er sú að bæði félögin séu skráð á hlutabréfamarkaði vestanhafs og þau þurfi að tilkynna fyrst um samningsferlið við Orkuveituna ef af verður. Stjórn Orkuveitunnar mun taka ákvörðun um málið í hádeginu á mánudag.

Eyþór segir að stefnt sé að því ef þetta gengur upp að ljúka endanlegum samningum um orkukaup fyrir 1. maí. „Ef það gengur upp þá miðum við okkar áætlanir við að hægt sé að hefja framleiðslu um leið og Hverahlíðarvirkjun á að verða tilbúin 2013.”