Um áramótin renna út 82 kjarasamningar. Þeim til viðbótar renna út 152 samningar í lok mars, en alls samsvarar það um 90% þeirra kjarasamninga sem losna næstu tvö árin. Lítið hefur heyrst í aðilum vinnumarkaðarins síðustu vikur, eftir töluvert vopnaskak í haust, enda hafa ýmis önnur mál verið fyrirferðarmikil í umræðunni, en síðustu daga hafa kjaramálin aftur rutt sér til rúms í fjölmiðlum. Velta má fyrir sér hvort þögnin hafi verið merki um að kjaraviðræðum miði áfram, eða einungis verið lognið á undan storminum.

Á þriðjudag viðraði verkalýðshreyfingin hugmyndir um að vísa kjaramálum til ríkissáttasemjara, og í gær sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að ef samið yrði um „óábyrgar“ launahækkanir yrðu fyrirhugaðar skattalækkanir á lág- og millitekjuhópa endurskoðaðar. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, svaraði um hæl og kallaði ummælin „stríðsyfirlýsingu við kröfur hreyfingarinnar“.

Málið til ríkissáttasemjara
Þá dró samninganefnd Eflingar samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu til baka í gærkvöldi, og nú í morgun gerði Verkalýðsfélag Akraness slíkt hið sama. 7 af 18 formönnum aðildarfélaga SGS höfðu viljað vísa viðræðunum til ríkissáttasemjara, en ekki var meirihluti fyrir því innan sambandsins, sem sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið og sagðist ætla að halda viðræðum áfram af krafti.

Vilhjálmur Birgisson, formaður VA segir að félagið muni vísa deilunni til sáttasemjara í dag eða á morgun, eina spurningin núna sé hvort Efling og VR sláist í hópinn og félögin þrjú myndi bandalag sem þá myndi vísa málinu sameiginlega þangað.

Ragnar Þór segir það til skoðunar, en hvernig sem það fari verði viðræðum við SA haldið áfram. „Ég hef umboð stjórnar til að vísa til ríkissáttasemjara. Þó svo að við gerum það munum við halda áfram viðræðum við SA. Við erum að reyna eins og við mögulega getum að ná saman, og munum leggja allt í sölurnar við að reyna að ná samkomulagi við okkar viðsemjendur án þess að þurfa að fara með málið fyrir ríkissáttasemjara eða í einhver átök.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir það undarlega nýbreytni að vísa málum til ríkissáttasemjara svo snemma, en hann telur það bæði ótímabært og óskynsamlegt. „Eftir því sem minni mitt rekur til hefur samningum aldrei verið vísað til ríkissáttasemjara áður en þeir renna út. Við erum rétt á þeim stað að fara í gegnum stærstu atriði kröfugerðarinnar ennþá. Það hafa ekki myndast slíkir ásteytingarsteinar í þessu að viðræður séu strand. Þar til það gerist sé ég enga ástæðu til að vísa þessu til ríkissáttasemjara. Ég tel það bæði ótímabært og óskynsamlegt, og muni hægja á ferlinu.“

Ragnar og Halldór stíga varlega til jarðar í yfirlýsingum um gang viðræðna. Hvorugur er tilbúinn að segja að vel miði áfram, en viðræður virðast þó vera í fullum gangi.

„Hver fundur færir okkur nær lausn“
Halldór segir fundað nánast daglega og öll stærstu málin hafi verið rædd. „Það er mikil vinna að eiga sér stað, það eru fundir nánast á hverjum degi. Við erum komin á þann stað að við erum búin að fara í gegnum alla stærstu liði kröfugerðarinnar. Það sem gerist svo á milli funda er að sérfræðingahópar útfæra einstakar lausnir, sem síðan koma inn á stóra samningaborðið. Hver fundur færir okkur nær lausn.“

Hann leggur þó áherslu á að viðræðurnar séu á viðkvæmu stigi og enn sé mikil vinna fyrir stafni. „Þessir samningar, eins og allir þeir kjarasamningar sem á undan hafa komið, munu nást með því að miðla málum og að báðir aðilar gefi eftir af sínum ítrustu kröfum. Það er ekkert búið fyrr en allt er búið.“

Ragnar tekur í sama streng. „Ég get ekki sagt að við sjáum neitt sérstaklega til sólar, en við erum við að tala saman. Það eru komnir nokkrir starfshópar í gang sem eru að vinna saman, starfshópur um húsnæðismál og fleira. Staðan er þó mjög viðkvæm og getur breyst mjög hratt.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu nýlega að háskólafólk „ætlaði ekki að sitja eftir“ í kjaramálum, en samningar BHM losna snemma á næsta ári. Í greininni segir Þórunn félagið hafa sýnt samstöðu með kjörum hinna lægst launuðu eftir hrun, sem hafi orðið til þess að dregið hafi saman með háskólafólki og öðrum. Þegar birt hafi til í efnahagsmálum og til hafi staðið að leiðrétta kjör félagsmanna BHM, hafi aðrir hópar fylgt á eftir með sömu hækkanir, og leiðréttingaráhrifin því þurrkast út.

Breið sátt forsenda fyrir kerfisbreytingum
Ragnar segir ótímabært að mynda sér skoðun á yfirlýsingum og kröfum BHM á þessu stigi, en að þær kerfisbreytingar sem verkalýðshreyfingin leggi upp með velti á breiðari sátt á vinnumarkaði. „Við höfum átt ágætis samband við opinberu félögin. Við erum að vinna með þeim í starfshópi um húsnæðismálin, funda með þeim og ríkisstjórninni, og ætlum okkur að freista þess að ná saman með opinberu félögunum eins og BHM um hugsanlegar tillögur um breytingar á skattkerfinu. Ég held að ef ná eigi fram einhvers konar kerfisbreytingum – varðandi húsnæðis- og skattamálin til dæmis – þá hangi það saman við breiðari sátt á vinnumarkaði,“ segir Ragnar, en verkalýðshreyfingin hafi verið að skoða tillögur um að létta skattbyrði lág- og millitekjufólks á kostnað hátekjufólks. „Ég held að þú farir ekki í slíkar kerfisbreytingar öðruvísi en að ríkið geri kröfu um að það myndist einhver breiðari sátt á vinnumarkaði.“

Halldór segir aðkomu stjórnvalda vissulega geta skipt sköpum, en fyrst þurfi aðilar vinnumarkaðarins að ná saman. „Það að leiða kjaraviðræður til lykta er fyrst og fremst verkefni SA og verkalýðshreyfingarinnar. Þeirri ábyrgð vísum við aldrei frá okkur. Ef við skoðum málið sögulega hafa stjórnvöld komið inn á síðustu metrunum til að loka samningum, eftir að aðilar vinnumarkaðarins hafa náð saman um öll stærstu málin. Forsenda þess eru skynsamir kjarasamningar. Ég er mikill aðdáandi þess að skoða hvernig hlutirnir hafa þróast í fortíð, og ég geri ráð fyrir að hlutirnir verði með áþekkum hætti að þessu sinni.“

Ljóst er að þótt líf sé í viðræðunum er enn töluvert í land, og Halldór reiknar með fundarhöldum um jólin, en hann veigrar sér ekki við því. „Við erum duglegt fólk að upplagi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .