Gylfi á von á að kjaraviðræður á haustmánuðum muni fara fram býsna dreift. „Ég sé engar forsendur fyrir því að fara í þetta á einhverjum samræmdum grunni. Við erum ekki að fara að móta aðstæður, við erum að elta aðstæður. Ríkið hefur gefið línuna. Við þessar aðstæður eru það þeir sterku sem fara í gegn alveg eins og gerist á vettvangi ríkisins. Það er ekki samstaða þar heldur er hvert félag hjá BHM að semja fyrir sig. Sumir meta það þannig að þeir geta brotist í gegn og vilja ekki deila þeirri stöðu með öðrum.“

„Við erum með kjarasamning sem gildir til loka næsta árs. Við framlengdum uppsagnarákvæðið og vorum alveg tilbúin að horfa til þess að grunnskólakennarar hafi haft réttmæta kröfu til þess að bæta sína stöðu og fá hækkun umfram aðra ef aðrir hópar væru til í það þannig að við settum þann fyrirvara. En við sögðum jafnframt við stjórnvöld að vinnan við SALEK myndi ekki halda áfram nema ef stjórnvöld geri eitthvað í kjararáðsmálinu. Þannig að ábyrgðin á því að vinna úr þessari deilu og finna leiðir til að skapa sátt um eitthvað annað fyrirkomulag kjarasamninga en það sem verið hefur liggur alfarið hjá stjórnvöldum,“ segir Gylfi. Gylfi segir atvinnulífið hins vegar ekki geta firrt sig ábyrgð á því að forstjórar fyrirtækja á skráðum markaði með þrjár til sjö milljónir í mánaðarlaun beri mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. „Þetta er einhver fyrirmynd sem er horft til. Það er líka ljóst, þótt þeir séu bara tíu eða tuttugu, að ábyrgð þeirra á þessari stöðu er líka mjög mikil. Hún er táknræn og veldur ótrúlega mikilli spennu,“ segir Gylfi.

Höfum leyst úr erfiðum málum í samstarfi

Gylfi segir mikilvægt að stjórnmálin geri sér grein fyrir því að í kjararáðsmálinu hafi verið gerð stórkostleg mistök. „Það verður engin sátt á vinnumarkaði eða í þessu samfélagi ef menn ætla að halda þessu til streitu. Það verður að taka á þessari meinsemd sem kjararáðið hefur skapað. Hvort það dugi til veit ég ekki, en það er algjör forsenda fyrir því að geta sest að borðinu. Við Íslendingar höfum sýnt að við höfum leyst úr mjög erfiðum málum í samstarfi. Það gerðum við upp úr 1990 þegar við lentum í aflasamdrætti og efnahagslegri vá. Þá tókst mjög breitt samkomulag, að vísu eftir 18 mánaða viðræður en það tókst. Aftur tókst það 2009, stöðugleikasáttmálinn milli vinnumarkaðar og stjórnmála um stöðu ríkissjóðs og forgangsverkefni í að ná utan um kreppuna er alþjóðlega til fyrirmyndar um hvernig best er að glíma við kreppu. En nú erum við ekkert mjög góð í að stýra uppsveiflu, dæmin sanna það. Það útilokar samt ekki að það sé hægt. Við höfum verið að ræða við stjórnvöld um það sem við köllum samhengið milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika, að þetta sé sitthvor hliðin á sama peningnum. Tæki til að skapa sátt um hvernig við ætlum að efla okkar grunnkerfi er fimm ára ríkisfjármálaáætlun og í hvaða áföngum við ætlum að gera það. Fyrir vinnumarkaðinn gæti samkomulag um slíkt lagt grunn að einhverri slíkri þróun, en það tekst ekki að eiga þetta samtal. Það tekst ekki að fá stjórnmálin til að líta á þetta sem verkefni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .