Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár telur að skapleg lending í yfirstandandi kjaraviðræðum sé brýnasta hagsmunamál íslenskrar ferðaþjónustu þessi misserin.

„Aðalatriðið er að við náum kjarasamningum sem gera það verkum að hér verði áfram stöðugt verðlag og að starfsumhverfi greinarinnar haldi áfram að vera heilbrigt eins og það hefur verið að mestu leyti undanfarin ár,“ segir Friðrik.

„Við reiknum ekki með því að árið verði neitt sérstaklega slæmt en síðustu fjóra til sex mánuði hefur allt bent í þá áttina að það verði þónokkur samdráttur. Hins vegar hafa ferðaþjónustuaðilar, Íslandsstofa og þeir sem standa að markaðsmálum afskaplega einbeittan vilja til þess að reyna að minnka þann skaða sem af því myndi verða. Þannig að ég vona að þó að það komi einhver slaki núna að hann verði ekki alvarlegur,“ segir hann.

Styrking á gengi krónunnar hafi gert ferðaþjónustuaðilum erfitt fyrir en hún sé nú að hluta gengin til baka. Haldist gengi evrunnar á áþekkum slóðum og í dag, í kringum 140, skapi það ferðaþjónustunni viðunandi rekstrarskilyrði. Samkvæmt spánni mun farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll fækka í 8,95 milljónir á þessu ári miðað við 9,8 milljónir farþega árið 2018 sem er fyrsta fækkun farþega á Keflavíkurflugvelli frá árinu 2009. Þá er búist við að áfangastöðum fækki úr um 100 síðasta sumar í um 80 á þessu ári.

„Ég er búinn að vera nógu lengi í viðskiptum að vita að það koma sveiflur. Við vorum á toppnum árið 2017 og slakinn byrjaði 2018, en við skulum vona að hann verði ekki mikill umfram það sem hann var árið 2018 á nýbyrjuðu ári,“ segir Friðrik.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .