Á fundi í hádeginu í dag fjölluðu Samtök Atvinnulífsins um nauðsyn þess að reglulegar launahækkanir í landinu leiði ekki iðulega til ofriss íslensku krónunnar.

Segja samtökin að íslensku stéttarfélögin hafi sterka samningsstöðu sem leiði til mikils þrýstings á launahækkanir.

Vilja horfa til reynslu Norðurlandanna

Núverandi vinnumarkaðslíkan er að mati samtakanna orðið úrelt og vilja samtökin berjast fyrir nýju vinnumarkaðslíkani hér á landi sem horfa ætti til reynslu Norðurlandanna.

Launahækkanir á Íslandi séu að jafnaði þrefalt meiri en í viðskiptalöndum okkar og ekki í samræmi við undirliggjandi verðmætasköpun í hagkerfinu.

Margföld aukning launakostnaðar m.v. Norðurlöndin

Fyrir árið 2016 hafi launakostnaður á hverja framleidda einingu í hagkerfinu aukist um 8,5% á Íslandi meðan aukningin var 2,9% í Danmörku, 1,2 til 1,4% í Noregi og Svíþjóð og einungis 0,6% í Finnlandi.

Þessi miklu stökk í launaþróuninni leiðir til óstöðugleika með mikilli verðbólgu, þenslu, háu vaxtastigi og gengisstyrkingu krónunnar að mati samtakanna.

Gengisfall og kaupmáttarrýrnun fylgir

Afleiðingin sé skert samkeppnisstaða íslenskrar framleiðslu á erlendum mörkuðum, sem grafi undan íslenskum útflutningsgreinum. Það skapi hættu á ósjálfbæru ástandi sem leiðréttist með gengisfalli og kaupmáttarrýrnun hjá almenningi.

Launaþróun verði þvert á móti að vera sjálfbær og verði nýtt samningslíkan að byggja á sameiginlegum skilningi aðila vinnumarkaðar á nauðsyn þess að launaþróun sé sjálfbær.

Einn kjarasamningur á alla opinbera starfsmenn

Vísa samtökin þar í gríðarlegan mun milli Norðurlandanna á því hve margir starfsmenn séu á hvern kjarasamning. Í Finnlandi sé til dæmis einn kjarasamningur fyrir alla ríkisstarfsmenn, meðan á Íslandi sé dæmi um kjarasamning sem nái til tveggja starfsmanna.

Hér á Íslandi séu 79% allra launþega í stéttarfélögum, meðan í Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð séu á bilinu 68-70% þeirra í stéttarfélögum. Í Noregi er þó einungis rétt yfir helmingur, eða 55% launþega í stéttarfélögum.