Viðræðum í kjaradeildu Eflingar, VR , Verkalýðsfélags Akraness ( VLFA ) og Verkalýðsfélags Grindavíkur hefur verið slitið. Fundur hófst klukkan 14 í húsakynnum ríkissáttasemjara og hálftíma seinna gengu þau Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflinga, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA og Hörður Guðbrandsson, formaður VLFG, af fundinum.

Næsta skref hjá stéttarfélögunum er að kynna stöðuna fyrir baklandinu og í framhaldinu er líklegt félögin muni boða til kosninga á meðal sinna félagsmanna um verkfallsaðgerðir.

28% launþega í landinu

Samningaviðræður SA við félögin fjögur ná til tugþúsunda starfsmanna eða 33.200 félagsmanna í VR, hjá Eflingu ná þeir til 17.950 og hjá VLFA til 1.102. og um 1.200 hjá  Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Samningarnir ná því samtals til 53.452 launþega hjá VR, Eflingu , VLFA og VLFG. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar er fjöldi launþega á landinu öllu um 192 þúsund. Verkfall félaganna myndi því ná til 28% íslenskra launþega. Þeir starfa ansi víða. Þetta er til dæmis verslunar- og skrifstofufólk, hópferðabílstjórar, flugvallarstarfsmenn, þjónustufólk á hótelum, hafnarverkamenn og fólk í fiskvinnslu.

Forsvarsmenn félaganna fjögurra fengu allir umboð í gær til þess að slíta viðræðunum mætu þeir stöðuna þannig og sú varð raunin. Fjórmenningarnir hittust allir fyrir fundinn hjá ríkissáttasemjara til að stilla saman strengi. Ljóst var eftir fund forsvarsmanna vinnumarkaðarins með fulltrúum ríkisstjórnarinnar í fyrradag að staðan væri grafalvarleg. Verkalýðsforystan var mjög ósátt skattatillögur ríkisstjórnarinnar og því blasti við að dregið gæti til tíðinda hjá ríkissáttasemjara í dag.

Nákvæmlega tveir mánuðir eru síðan Efling, VR og VLFA vísuðu deilu sinni til ríkissáttasemjara en það gerðu þau þann 21. desember eða tíu dögum áður en samningarnir losnuðu. Verkalýðsfélag Grindavíkur vísaði sínum viðræðum í sama farveg í janúar.