Gagnaverauppbygg­ingu hefur verið lýst sem næsta stóra sóknartækifæri ís­lensks viðskipta­lífs og að sögn formanns Samtaka gagnavera á Íslandi (DCI), Jóhanns Þórs Jónssonar, sem og annarra sérfræðinga eru gríðarlegir hags­munir fólgnir í því að efla uppbygg­ingu gagnavera hér á landi.

Samkeppnin við nágrannaþjóðir okkar á þessu sviði er hörð enda telja þær líkt og aðrir mikil framtíð­artækifæri í greininni. Í skýrslu sem greiningarfyrirtækið Boston Con­sulting Group gerði um sænskan tæknimarkað í fyrra og ber nafnið Capturing the data centre opportunity – How Sweden can become a global front-runner in digital infrastructure , kemur fram að gagnaver spili nú þegar mjög stórt hlutverk í sænsku efnahagslífi. Heildar efnahagsleg áhrif starfseminnar árið 2015 námu til að mynda 13 milljörðum sænskra króna eða sem nemur tæpum 152 milljörðum íslenskra króna á núver­andi gengi. Sama ár voru 2.100 full stöðugildi tengd starfseminni.

83% ódýrara á Íslandi

Flestum sérfræðingum og skýrslum ber saman um að á Íslandi séu kjöraðstæður fyrir gagnaver en í skýrslu um hagræn áhrif gagnavera kemur fram að sam­ keppnishæfni Íslands felst aðallega í því að dreifikerfi  íslenskrar raforku sé eitt það áreiðanlegasta í heim­inum. Líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu eru þá ákveðnar blikur á lofti hvað öryggi og afhendingargetu í kerfinu varð­ar. Á sama tíma er framleiðslukostn­aður íslenskrar raforku líklegast sá lægsti í heiminum en að mati sér­ræðinga skipta þessir tveir hlutir höfuðmáli.

Þess utan gera veðurskilyrði á Ís­landi það að verkum að hægt er að tryggja ókeypis kælingu allan ársins hring en afleiðing þess er hlutfalls­lega minni orkunotkun en ella. Sá orkusparnaður sem hlýst af veðráttu Íslands getur þýtt umtalsverðan sparnað við rekstur gagnavers á Ís­landi samanborið við þau lönd sem við berum okkur helst við. Í skýrsl­unni er til að mynda rifjað upp hvernig fyrirtækið BMW skar nið­ur kostnað sinn við gagnaversrekst­ur um 83% með því að færa gagna­versstarfsemi sína frá Þýskalandi til Íslands.

Öflug samkeppnisstaða

Landfræðileg lega Íslands gerir landið einnig að ákjósanlegri stað­setningu fyrir gagnaver og gæti landið ver­ið í kjörstöðu ef hér væri gagnateng­ing beint við Norður Ameríku þ.e. án viðkomu langt uppi á vesturströnd Grænlands.

Síðustu ár hefur aðgengi að vatni skipt tiltölulega litlu máli í ákvarð­anatöku um staðsetningu gagnavera en ýmislegt bendir til þess að það muni þó koma til með að breytast þegar fram líða stundir. Eins og gefur að skilja eflir það enn samkeppnisstöðu Íslands á þess­ um markaði en því til viðbótar hefur Ísland fengið hæstu einkunn þegar hlutfall endurnýjanlegrar raforku er skoðað. Noregur og Svíþjóð standa okkur næst en Ísland er samt sem áður ennþá það eina af Norðurlönd­unum sem getur státað sig af 100% endurnýjanlegri raforku gagnavera.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.