Sérstakar kosningar voru haldnar um þingsæti í Montana eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti skipaði þingmanninn Ryan Zinke sem innanríkisráðherra, en rétt fyrir kosningarnar tók sigurvegari kosninganna sig til og réðst á ágengan fréttamann frá breska blaðinu Guardian, en tókst samt sem áður að sigra þingsætið sem Repúblikanar hafa haldið í tvo áratugi.

Sigurvegari kosninganna er Greg Gianforte, frá Repúblikanaflokknum sem hefur tryggt sér 51% atkvæða á móti demókratanum og þjóðlagasöngvaranum Rob Quist sem hlaut 43% atkvæða.

Í sigurræðunni baðst Gianforte afsökunar og sagðist hafa lært sína lexíu, en fréttamaður Fox segir að hann hafi tekið fréttamann Guardian blaðsins, Ben Jakobs, í Bretlandi hálstaki með báðum höndum og slengt honum í jörðina, í kjölfar ítrekaðra spurninga Jakobs.

„Þegar þú gerir mistök þarftu að gangast við þeim, það er leið Montanabúa,“ sagði Gianforte að því er BBC greinir frá, eftir að hafa fyrst fengið hlátrasköll frá áhorfendum þegar hann minntist á atburðinn.

Gianfonte hefur verið ákærður og gæti hann þurft að greiða allt að 500 Bandaríkjadala sekt, eða sem jafngildir um 50 þúsund íslenskum krónum, eða sitja af sér hálfs árs fangelsi. Gianfonte er milljónamæringur og framkvæmdastjóri úr tæknigeiranum, en andstæðingur hans, Rob Quist, er þjóðlagasöngvari sem spilar á banjó.