*

föstudagur, 26. apríl 2019
Innlent 15. febrúar 2018 17:03

Kjararáð ráði ekki launum þingmanna

Starfshópur um málefni kjararáðs leggur til að ráðið úrskurði ekki um laun kjörinna fulltrúa og dómara.

Ritstjórn
Samkvæmt tillögunum verða laun þingmanna ákvörðuð í lögum um þingfararkaup.
Haraldur Guðjónsson

Starfshópur um málefni kjararáðs sem forsætisráðherra skipaði hinn 23. janúar hefur lokið störfum. Niðurstaðan er sú að í  meginatriðum verður hætt að úrskurða um laun æðstu manna samfélagsins eftir óskýrum viðmiðunum. Launafjárhæðir eiga að vera aðgengilegar og auðskiljanlegar almenningi og einnig þeim sem störfunum gegna. Starfshópurinn telur ekki forsendur til að draga tilbaka þær launahækkanir sem kjararáð hefur þegar úrskurðað um.

Tillögur nefndarinnar eru í nokkrum liðum og fela í sér ábendingar sem nefndin er einhuga um. Í skýrslunni segir að ýmis útfærsluatriði þurfi að móta nánar áður en þeim verður hrint í framkvæmd.

Tillögurnar um fyrirkomulag launaákvarðana eru eftirfarandi:

 1. Horfið verði frá því að úrskurða í kjararáði, eða hjá sambærilegum úrskurðaraðila, um laun þjóðkjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna, ráðherra og annarra sem undir ráðið heyra.
 2. Laun þingmanna verði ákvörðuð í lögum um þingfararkaup með fastri krónutölufjárhæð miðað við tiltekið tímamark. Laun ráðherra verði ákveðin með sama hætti í lögum um Stjórnarráð Íslands. Sama gildi um starfstengdar kostnaðargreiðslur sem jafnframt verði einfaldaðar og gagnsæi þeirra aukið. Laun forseta Íslands verði ákveðin með sambærilegum hætti í lögum um laun forseta Íslands.
 3. Kjör dómara verði einnig ákveðin í lögum með fastri fjárhæð. Ríkissaksóknari nýtur samkvæmt lögum um meðferð sakamála sömu kjara og hæstaréttardómarar.
 4. Þau laun sem þannig eru fastsett með lögum verði endurákvörðuð hinn 1. maí ár hvert og gildi óbreytt í eitt ár frá þeim degi.
 5. Við endurákvörðun launa samkvæmt lið 4 telur starfshópurinn rökrétt að miða við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna, eins og það birtist í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár. Hagstofan birti upplýsingar með stuttri greinargerð um breytingu meðaltals reglulegra launa ríkisstarfsmanna eigi síðar en 1. apríl ár hvert.
 6. Vegna alþjóðlegra skuldbindinga um sjálfstæði seðlabanka og fjármálaeftirlits, og hlutverks þeirra í að tryggja fjármálastöðugleika og efnahagslegan stöðugleika er eðlilegt að bankaráð Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins taki ákvörðun um laun æðstu stjórnenda þeirra.
 7. Um aðra sem heyra nú undir kjararáð gildi að meginstefnu samningsréttur um kaup og kjör eða það fyrirkomulag sem ákveðið var í 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hér undir falla einnig Biskup Íslands og starfsmenn þjóðkirkjunnar en taka þarf tillit til skuldbindinga ríkisvaldsins gagnvart þjóðkirkjunni í því sambandi.

Í skýrslunni segir samkvæmt tillögunum sé verið gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem heyra undir kjararáð. Jafnframt segir að ekki sé ástæða til að ætla að launaþróunin sjálf breytist eða að kostnaður ríkisins taki stakkaskiptum frá því sem verið hafi.

Helstu kostir þess að fastsetja launafjárhæðir með lögum og taka upp árlega endurskoðun launa sem tekur mið af almennri launaþróun ríkisstarfsmanna eru eftirfarandi að mati starfshópsins:

 1.  Breytingar á launum æðstu embættismanna ríkisins verða ekki leiðandi. Með því fyrirkomulagi að laun séu endurskoðuð eftir að launaþróun næstliðins árs liggur fyrir er komið í veg fyrir ósamræmi í launaþróun.
 2. Þróun á launum verður jafnari. Ekki mun koma til þess að endurskoðun dragist og hækkanir verði í stórum stökkum.
 3.  Laun æðstu embættismanna ríkisins verða gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Í núgildandi fyrirkomulagi eru upplýsingar um laun embættismanna og dómara hvergi aðgengilegar almenningi og illskiljanlegar meðal annars vegna þess að stór hluti launa er greiddur í formi eininga og laun og önnur kjör þingmanna og ráðherra hafa verið ákveðin af tveimur aðilum.
 4. Mælikvarðar og tímamörk endurskoðunar á launum verða öllum ljós. Þeir sem launin þiggja geta áttað sig á því hvernig endurskoðun verður háttað og ríkissjóður getur áætlað útgjöld vegna launanna á skipulegan hátt.
 5. Komið er í veg fyrir óskýrar launaákvarðanir. Þau störf sem um ræðir (þjóðkjörnir fulltrúar, ráðherrar, dómarar o.fl.) eru stöðug í þeim skilningi að þeir sem þeim gegna koma og fara en störfin eru hin sömu. Ekki er um að ræða framgang innan sömu embætta eða breytingar sem kalla á sérstakt mat á starfsmönnum eða störfunum sjálfum eftir að hæfileg laun eru ákveðin í eitt skipti fyrir öll.
 6. Samræmi um launaákvarðanir. Með því að launaákvarðanir um fleiri starfsgreinar fari eftir 39. gr. a laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og verði á hendi eins aðila má ætla að eðlilegra samræmi og samfella verði í starfsmati og kjörum.

Lesa má skýrslu starfshópsins hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

 • - Viðskiptablaðið sent heim
 • - Vefaðgangur að vb.is
 • - Frjáls verslun sent heim
 • - Fiskifréttir sent heim