Í síðustu viku birti The Global Entrepreneurship and Development Institue skýrsluna Female Entrepreneurship Index um rannsókn á kvenfrumkvöðlum. Í skýrslunni kom fram að Ísland er númer 7 í heiminum fyrir kvenfrumkvöðla. Þó sýna rannsóknir að þörf er á meiri stuðningi til að efla frumkvöðlastarfsemi. Dr. Siri Terjesen, annar höfundur skýrslunnar, var stödd á Íslandi vegna Women Empowerment 2015 ráðstefnunnar í Hörpu og ræddi viðskiptablaðið við hana um skýrsluna.

Telur þú að það sé mikilvægt að skoða kvenfrumkvöðla sérstaklega í dag?

„Algjörlega, vegna þess að þættirnir sem hafa áhrif á möguleika kvenna til að stofna fyrirtæki eru mjög frábrugðnir þeim sem hafa áhrif á möguleika karla. Í skýrslunni er metið hvaða aðgang konur hafa að barnagæslu, jafnrétti í vinnuafli og kvennaleiðtogum, sem við teljum mjög mikilvægt að skoða.“

Hægt að fjármagna fyrirtæki á tíu mínútum

Af hverju heldurðu að Bandaríkin séu hæst á listanum?

„Við erum best í fjármögnun fyrir hlutafjárútboð nýsköpunartækja. Við erum með alls kyns fjárfesta og engla og öfluga söfnun á netinu, þar má nefna Indiegogo. Þú getur stofnað fyrirtæki og verið komin með fjármagn tíu mínútum seinna. Einnig er mjög auðvelt að kynnast öðrum frumkvöðlum í Bandaríkjunum þar er gott tengslanet.“

Konur þurfa að sjá fleiri tækifæri

Stuðullinn um frumkvöðlastarfsemi kvenna er mældur milli 0 og 100, Bandaríkin sem eru hæst á listanum eru með 82,9 stig. Heldurðu að það verði tími þar sem lönd munu mælast nær 100?

„Helst myndum við vilja að sjá það. Hver einasti af þeim 15 hlutum sem við mælum í stuðlinum er mældur fyrir miðað við einstaklinga og stofnanir. Partur af því sem er ekki að þróast eru stofnanirnar. Einnig þurfa konur að sjá meiri tækifæri og komast í samband við frumkvöðla. Ef það eykst, mun stuðullinn hækka. Almennt er ástandið þó að batna. Við erum að færast í rétta átt, ekki í öllum löndum, en í flestum.“

Fram kom í skýrslunni að 47 lönd af 77 mælast enn með undir 50 á stuðlinum. Löndin sem eru hæst á listanum virðast vera þau sem eru almennt talin góð þegar kemur að jafnrétti, má þar nefna Norðurlöndin, Bretland, Bandaríkin og Ástralíu. Eru þá löndin sem eru verst fyrir kvenfrumkvöðla almennt séð léleg þegar kemur að jafnrétti?

„Já og við sjáum það að þegar land er með háa atvinnuþátttöku kvenna er það líka betra fyrir kvenfrumkvöðla. Þetta er ekki fullkomlega línulegt samband, en venjulega er þetta svona.“

Ísland þarf að bæta aðgengi að fjármögnun

Ísland er númer 7 á listanum. Hvernig getum við bætt okkur?

„Þegar kemur að áhrifum stofnana á Íslandi er vísirinn mjög góður. Það eru nokkur svæði sem Ísland gæti þó bætt. Ísland er gott fyrir viðskiptaáhættu, netsamband, samfélagsnet innan stofnana og aðgengi að barnagæslu. Þar sem landið stendur sig illa er í fjármögnun fyrir hlutafjárútboð nýsköpunarfyrirtækja. Það er mjög takmörkuð fjármögnun í boði fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki. Það mætti bæta það. Annað svæði sem Ísland gæti bætt er það að þekkja frumkvöðul. Konur sem þekkja frumkvöðul eru mun líklegri til að stofna fyrirtæki.“

Konur fældar frá tæknigeiranum

Hlutfall fyrirtækja sem stjórnað er af konum í tækniiðnaðinum lækkaði um 19% milli ára, af hverju heldurðu að þetta sé?

„Þessi tala veldur miklum vonbrigðum. Það er mikið af neikvæðum fréttum að koma út úr tækniheiminum í dag, sér í lagi í Bandaríkjunum sem kemst í alþjóðlegar fréttir. Auk þess sýna rannsóknir að 97% af áhættufjármagni fara til fyrirtækja þar sem er karlforstjóri og flest af þeim fyrirtækjum eru í tækniiðnaðinum. Þó að það séu nokkrar góðar kvenfyrirmyndir í tæknigeiranum meðal annars Rakel Sölvadóttir á Íslandi og Marissa Mayer og Sheryl Sandberg í Bandaríkjunum eru konur annað hvort ekki að fara inn í tækniiðnaðinn eða hætta í honum. Margar af þessum konum halda áfram í nýsköpunargeiranum en prófa annað svið. Konum finnst oft tækniheimurinn ekki vinalegur vinnustaður. Ég held að það hafi mikið með yfirburð karla að gera og að konum líði ekki vel í þessum kringumstæðum.“

Hvað getum við gert alþjóðlega til að bæta stöðu kvenfrumkvöðla?

„Það fer eftir því hvar í heiminum konurnar eru. Í Evrópu er stóra vandamálið að þekkja tækifæri þegar maður mætir því. Konur sjá ekki alltaf að vandamálin sem þær standa frammi fyrir og gremja yfir einhverju er gott tækifæri til að byrja. Í rómönsku Ameríku er hægt að skerpa fókusinn á útflutning og leita að viðskiptavinum utan landsins. Í Afríku suðan Sahara þarf að auka aðgengi kvenna að bankareikningum og viðskiptanámskeiðum. Í Austur Asíu þarf að byggja upp þekkingu auk þess að efla sjálfstraust kvenna. Í öllum heiminum þarf að fá stjórnvöld til að skoða þau svið þar sem illa gengur og bæta þau. Auk þess geta lönd lært frá öðrum löndum sem standa sig vel á því sviði.“

Ert þú bjartsýn um að staða kvenfrumkvöðla muni batna?

„Ég held að staða kvenfrumkvöðla hafi batnað mikið milli ára og muni halda áfram að batna. Ég held að loksins sé fólk sem vinnur í efnahagsþróun að skilja það að frumkvöðlastarfsemi skili hagvexti og að þátttaka kvenna á því sviði sé nauðsynleg.“

Skýrsluna má lesa í heild sinni með því að smella hér .