Nú á dögunum var tilkynnt um að þær Helga Valfells, Hekla Arnardóttir og Jenný Ruth Hrafnsdóttir, hefðu sagt störfum sínum lausum hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins en þær hyggjast stofna nýjan sjóð. Sá sjóður ber nafnið Crowberry Capital slhf. Nýi sjóðurinn kemur til með að fjárfesta í ungum vaxtarfyrirtækjum. Nú vinna stofnendur Crowberry í óða önn að því að fjármagna sjóðinn og ræða við fjárfesta.

Hekla tekur fram að þær séu í viðræðum við lífeyrissjóði og einkafjárfesta. „Við viljum hrinda þessu frekar hratt af stað. Það er fullt af góðum verkefnum sem okkur klæjar í fingurna til að fjárfesta í. Nú er rétti tíminn til að stofna fyrirtæki,“ segir hún. Jenný bætir við að Crowberry sé þegar kominn með leiðandi fjárfesti, en þó eigi sjóðurinn enn eftir að safna talsverðu.

Tími nýsköpunar eftir hrun

Tildrög þess að þær ákváðu að stofna nýjan sjóð er að þær sáu skýra þörf fyrir fjármagn á ákveðnu stigi til að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi. „Það er í rauninni þetta stig þegar fyrirtækin eru búin að móta við- skiptahugmynd sína og jafnvel komin með fyrstu lausn og eru að hefja markaðssetningu. Þetta eru fyrirtæki sem ekki eru enn komin með tekjur og þurfa því fjárfesti sem hefur skilning á því og tekur þátt í að koma sölu- og markaðsstarfinu í gang. Þá er mjög algengt að það koma stofnfjárfestar að fyrirtækjunum, en það er í raun og veru enginn slíkur sjóður virkur á þessu stigi í dag. En það eru hins vegar sjóðir sem koma og taka þátt í þroskaðri fyrirtækjum,“ segir Hekla. Hún bætir við að það hafi verið skemmtileg vinna hér á landi í nýsköpunarbransanum, eftir hrun.

„Þá fóru mjög margir að hugsa að það væri gaman að gera skemmtilega hluti hérna og skapa ný fyrirtæki. Það fóru margir öflugir einstaklingar í þetta. Á undanförnum árum hefur ekki verið fjármagn til að taka á móti þessum góðu hugmyndum.“

Jenný segir að Crowberry vilji leggja áherslu á það að byggja upp þekkingarfyrirtæki frá Íslandi, sem ekki byggja á nýtingu náttúruauðlinda. „Við viljum sjá fleiri skráð fyrirtæki framtíðarinnar sem byggja á tækni og þekkingu.“

Ekki bara konusjóður

Þrátt fyrir að allir stofnendur Crowberry séu konur, þá sé það ekki eitthvert sérstakt keppikefli fyrir þær að vera einhvers konar kvennasjóður.

„Það er ekki keppikefli fyrir okkur. Þetta verður ekki konusjóður fyrir utan þá staðreynd að við erum allar konur. Teymið er svona samsett vegna þess að við deilum sömu gildum þó við höfum mismunandi styrkleika. Við höfum haft reynslu af því að vinna saman í nokkur ár,“ segir Jenný. Hekla bætir þó við að þá sé það jákvætt að konur fá fleiri fyrirmyndir á þessu sviði. „Konur eru mjög góðar í frumkvöðlastarfsemi þegar þær vinna á þessu sviði,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .