*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 20. september 2017 12:01

Klappir á markað á morgun

Hlutabréf félagsins Klappa Grænna Lausna hf. munu verða tekin til viðskipta á Nasdaq First North í fyrramálið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hlutabréf Klappa Grænna Lausna hf. verða tekin til viðskipta á Nasdaq First North Iceland á morgun kl. 9:30. Fyrr í dag var tilkynnt um það að Nasdaq hefur aflétt öllum skilyrðum fyrir töku hlutanna til viðskipta á First North og hefur Nasdaq Iceland hf. þar af leiðandi samþykkt töku þeirra til viðskipta.

Heildarfjöldi útgefinna hluta í félaginu skiptist í tvo flokka. B-flokki hlutabréfa að nafnverði 66.500.000 kr. að nafnverði og A-flokk að 50.000.000 kr. að nafnverði. Hver hlutur er 1 króna að nafnverði.

Arion banki hafði umsjón með skráningu Klappa á Nasdaq First North markaðinn í Kauphöllinni. 

Hugbúnaðarlausnir Klappa eru eitt af allra fyrstu upplýsingakerfum sinnar tegundar í heiminum á sviði umhverfismála og er þeim ætlað að styðja fyrirtæki, sveitarfélög og ríki við að byggja upp öfluga innviði til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru á því sviði. Traust og skilvirk aðferðafræði hugbúnaðarins mætir þörfum notenda búnaðarins við að safna saman, samkeyra, greina og miðla áreiðanlegum umhverfisupplýsingum. Hugbúnaðurinn mætir alþjóðlegri umhverfislöggjöf varðandi flesta þætti umhverfismála og einnig mikilvægum þáttum íslenskra og evrópskra umhverfislaga hvað varðar söfnun og miðlun á upplýsingum um orkunotkun og upplýsingum um meðferð á úrgangi. Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson er forstjóri fyrirtækisins.