Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað stendur yfir lokaundirbúningur fyrir jafnlaunaúttekt sem mun fara fram í þessari viku. Það er fyrirtækið BSI á Íslandi sem annast úttektina en BSI er faggild skoðunarstofa.

Frá þessari vinnu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Í úttektinni er metið hvort jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar standist kröfur staðalsins ÍST 85:2012, en ef svo reynist mun fyrirtækið fá svokallaða jafnlaunavottun. Fyrsta stigs úttekt fór fram í október og gekk hún vel að sögn Hákonar Ernusonar, starfsmannastjóra.

„Það voru gerðar nokkrar athugasemdir við uppleggið hjá okkur, sem við höfum svo verið að vinna í að laga fyrir lokaúttektina. Við höfum þurft að leggjast í mikla greiningu á launamálunum hjá okkur, en í lokaúttektinni eru skoðuð raungögn úr launakerfinu. Þá eru allar launagreiðslur fyrir heilan mánuð teknar til skoðunar og grafist fyrir um það hvort um einhvern óútskýrðan kynbundinn launamun sé að ræða. Við fengum Capacent í lið með okkur í þessa greiningu og er niðurstaðan sú að slíkur launamunur sé ekki fyrir hendi hjá fyrirtækinu. Það er með öðrum orðum enginn óútskýrður munur á launum karla og kvenna hjá fyrirtækinu í sambærilegum störfum, sem er ánægjulegt“, segir Hákon.

„Þetta kemur okkur samt ekkert sérstaklega á óvart. Það er skýrt í starfsmannastefnunni okkar að laun eigi að ákvarðast af kjarasamningum, ábyrgð, hæfni og öðrum málefnalegum þáttum en ekki kynferði, kynhneigð, uppruna eða öðru slíku. Slík mismunun er ekki heimil hjá okkur. Við höfum nú sent launagögnin og greininguna til BSI og förum svo í lokaúttektina í næstu viku. Ef allt gengur að óskum verðum við því komin með jafnlaunavottun fyrir lok árs, sem er það sem við stefndum að. Fresturinn til að uppfylla kröfur staðalsins var reyndar lengdur til áramóta 2019, en við tókum ákvörðun um að keyra þetta áfram og klára þetta sem fyrst. Þessi vinna hefur verið mjög gagnleg fyrir okkur og mun hún nýtast vel til að tryggja faglega stjórnun launamála til framtíðar“, segir Hákon.