*

sunnudagur, 26. maí 2019
Fólk 18. nóvember 2018 19:01

Klífur hundrað tinda

Júlía Rós Atladóttir hefur verið ráðin til liðs við CCEP á Íslandi og mun hún veita vörustjórnunarsviði forystu.

Sveinn Ólafur Melsted
Að mati Júlíu er hálendi Íslands einhver magnaðasti staður í heimi og fer hún þangað reglulega.
Haraldur Guðjónsson

Júlía Rós Atladóttir, sem mun á næstunni taka sæti í framkvæmdastjórn og leiða vörustjórnunarsvið CocaCola European Partners á Íslandi, kveðst vera mjög spennt fyrir nýja starfinu.

„Nýja starfið tengist mínu áhugasviði sem tengist ferlum og flæði vara. Þetta starf er ekki ólíkt því sem ég hef verið að gera áður en í starfi mínu hjá Vistor hef ég þó verið meira markaðsmegin. Mér þykir þessi rekstrarhlið skemmtileg og sömuleiðis hef ég mjög gaman af því að vinna með fólki, en það eru um það bil 100 manns sem vinna á vörustjórnunarsviði CCEP og því eru spennandi tímar framundan. Það heillaði mig einnig að CCEP er alþjóðlegt fyrirtæki og það  er spennandi að læra af og vinna með því reynslumikla starfsfólki sem starfar innan raða fyrirtækisins."

„Ég brenn fyrir þessari vörustjórnunarhlið á rekstri fyrirtækja. Ég vann í lyfjaframleiðslu Actavis í nokkur ár og stýrði vöruhúsum Distica, sem er góður undirbúningur fyrir starfið hjá  CCEP. Svo hef ég tekið smá hliðarspor og starfað sem markaðsstjóri fyrir erlenda lyfjabirgja á Íslandi, auk þess sem ég starfaði í eitt ár hjá Icelandair þar sem ég stýrði þjónustuskoðunum flugvéla. Þessi tvö störf eru svolítið ólík því sem ég hafði áður starfað við en þau veittu mér ómetanlega reynslu sem nýtist vel við störf í vörustjórnun, þar sem ég öðlaðist sýn á þarfir markaðarins og viðskiptavinarins," segir Júlía.

Að sögn Júlíu er útivera í íslenskri náttúru hennar helsta áhugamál.

„Ég hef tekið mér það verkefni fyrir hendur að ganga upp á  hundrað hæstu tinda landsins, en þetta verkefni er á vegum Ferðafélags Íslands. Að mínu mati er hálendi Íslands einhver magnaðasti staður í heimi og ég fer þangað reglulega. Í framtíðinni langar mig svo að prófa að fara erlendis í fjallgöngu. Ég á fjögur börn á aldrinum 8-15 ára og því í nægu að snúast. Ég hleyp einnig alltaf í Reykjavíkurmaraþoninu. Mér þykir yfirleitt afskaplega leiðinlegt að hlaupa en mér þykir stemningin í kringum Reykjavíkurmaraþonið svo frábær að hlaupið verður hin besta skemmtun.

Síðastliðið sumar fór ég svo ásamt eiginmanni mínum og börnum í ferðalag þar sem við keyrðum um Evrópu. Við flugum til Þýskalands og leigðum okkur stóran bíl á flugvellinum þar. Svo keyrðum við um Þýskaland, Frakkland, Belgíu og Lúxemborg. Við höfðum ekki planað neitt fyrirfram þannig að við keyrðum bara af stað og hoppuðum svo inn í gistingu þar sem við vorum stödd þann daginn. Þetta var mikið ævintýri og ótrúlega skemmtilegt ferðalag," segir Júlía.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim