Knarr Russia, dótturfélag Knarr Maritime á Íslandi, hefur verið boðin þátttaka í klasaverkefni rússneskra skipasmíðastöðva í tengslum við fyrirhugaða endurnýjun „moskító“-flotans, flota minni fiskiskipa sem eru á bilinu 150-200 talsins sem verða endurnýjuð. Þetta eykur til muna líkurnar á því að Knarr Rus verði eitt tveggja eða þriggja fyrirtækja sem leitað verður til með hönnun og heildarpakka fyrir minni fiskiskip á bilinu 26-45 metrar að lengd.

Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Knarr Maritime, segir samsteypuna með mörg járn í eldinum í Rússlandi. Þannig eru núna teikningar og hönnun á byltingarkenndu krabbaveiðiskipi fyrir Primecrab, dótturfyrirtæki Russian Fishery, tilbúnar og bíða þess að verða lagðar fyrir rússnesk stjórnvöld til samþykktar.

Smíði er hafin á sex skipum  fyrir Norebo sem er stærsta útgerðarfyrirtæki Rússlands. Hugsanlegt er að skipin verði alls tíu. Kjölur var settur að fyrsta skipinu í nóvember og er áætlað að fyrsta skipið renni af stokkunum í byrjun árs 2020.

Eins og Fiskifréttir hafa greint frá landaði Skaginn3X og Frost sem er hluti af Knarr samsteypunni risasamningi um smíði og uppsetningu á tveimur landvinnslum, annars vegar fyrir Gidrostroy útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið á Kuril-eyjum, og hins vegar Lenin Kolkhoz á Kamtsjatka skaganum. Góður gangur er í verkefnunum og hefur Knarr Rus undanfarið verið að fara yfir umsóknir rússneska tæknimanna sem er ætlað að sinna viðhaldi. Ráðgert er að Knarr Rus, þar sem nú starfa sex manns, verði orðið 20 manna fyrirtæki í árslok 2019. „Þarna þurfum við að hafa rússneskumælandi fólk sem getur sinnt þeim viðhaldsverkefnum og þjónustu sem eru framundan.“

„Fljótandi tæknisetur“

„Allri forvinnu við krabbaveiðiskip Primcrab fyrir kvótaumsóknarferlið er lokið. Nautic Rus hefur haft veg og vanda við frumdrög og hönnun á þessu nýja skipi. Til þess að sækja um fjárfestingakvóta vegna nýsmíðinnar þurfa stjórnendur fyrirtækisins að leggja fram nákvæma lýsingu og hönnun á skipinu fyrir stjórnvöld. Styrkur Knarr kemur skýrt fram í þessu tiltekna verkefni. Við gengum þarna inn í verkefni sem er algjör nýjung og eitthvað sem enginn hefur gert áður. Krabbaskip hefur ekki áður verið hannað frá grunni. Það verður með hágæða vinnslu um borð og er í raun fljótandi krabbavinnsluhús. Það getur komið með lifandi og frosinn krabba í land og vinnslan getur farið alveg niður í neytendapakkningar. Þar kemur Skaginn3X og Frost mjög öflugir inn,“ segir Haraldur.

Næsta stóra verkefni Knarr samsteypunnar er að gera sig gildandi þegar kemur að endurnýjun „moskító“-flotans. Þetta eru minni fiskiskip í þremur stærðarflokkum. Félögin innan Knarr hópsins hafa átt tvo fundi með rússneskum yfirvöldum ásamt öðrum fyrirtækjum sem vilja bjóða sínar heildarlausnir. Haraldur telur Knarr eiga þarna mjög góða möguleika. Þarna verði samt hörð samkeppni en styrkur Knarr felist í því að geta boðið fram alla heildarlausnina, þ.e.a.s. hönnun á skipum, allan búnað í þau og allar lausnir varðandi landvinnslu að auki, allt undir einum hatti sem væri gríðarlega spennandi verkefni.

Allur pakkinn

Mestmegnis verður þetta nýsmíði á ferskfiskskipum og skipum með kælitanka (RSW). „Þessi skip þurfa öll að koma fiskinum á land og hann þarf að vinna á sem hagkvæmastan hátt með hágæða vinnslutækni sem í boði er í dag. Það er virkilega spennandi að geta boðið upp á svona breiðan pakka, allt frá veiðum úti á sjó til vinnslu á landi. Skipin eiga ekki að vera of dýr og einfaldari að gerð á vissan hátt en stóru skipin sem við höfum hannað undanfarið.“

Endurnýjun „moskító“-flotans lýtur öðrum lögmálum en endurnýjun stóru frystitogaranna sem byggir á svonefndum fjárfestingarkvóta stjórnvalda. Rússneska ríkið styrkir að hluta endurnýjun „moskító“-flotans með styrkjum og lánum á hagstæðum kjörum. Veitt  verður lán með ríkisábyrgð fyrir 65% af verði hverrar nýsmíðar, 25% opinber styrkur þegar skipið er klárt til veiða.  Útgerðarfyrirtækin þurfa því ekki að leggja út fyrir nema 10% af heildarverði hvers skips ásamt fjármagnskostnaði meðan á smíði skipsins fer fram.

Knarr er sannarlega góða möguleika hvað varðar þetta risavaxna verkefni í Rússlandi. Morechprom, klasaverkefni 26 rússneskra skipasmíðastöðva, bauð Knarr til þátttöku í klasanum á grundvelli þess orðspors sem íslenska fyrirtækjasamstæðan hefur aflað sér í Rússlandi. Knarr þáði boðið og er þar ásamt fleiri fyrirtækjum sem bjóða lausnir í hönnun og búnaði.

„Ástæðan fyrir því að Knarr Rus er valinn er sú að við bjóðum upp á heildarlausn og við höfum náð góðum árangri í Rússlandi. Á endanum verða valdir þrír til fjórir aðilar aðilar sem bjóða fram heildarlausnir og ég hef góða tilfinningu fyrir því að Knarr verði með í þessu. Einungis það að vera boðin þátttaka í þessum klasa er mikill heiður.“

Áhugi er meðal íslenskra sjávarútvegstæknifyrirtækja að ganga til liðs við Knarr fyrirtækjasamsteypuna. Nú nýlega var skrifað undir samninga um aðild við D-Tech, sem sérhæfir sig í lausnum á sviði sótthreinsunar fyrir skip og fiskvinnslur, til markaðssóknar í Rússlandi. Einnig hefur verið skrifað undir sams konar samning við bátahönnunarfyrirtækið Rafnar um markaðssókn í Rússlandi. Þarna sér Haraldur talsverða möguleika, t.a.m. hjá rússnesku strandgæslunni, björgunarsveitum og fleiri aðilum sem hafa not fyrir slíka báta með þessa einstöku eiginleika.

Haraldur segir að rússneskur skipasmíðaiðnaður sé á hraðri uppleið. Verkefnin í tengslum við endurnýjunarfasann á fiskiskipaflotanum eru mikil og uppbygging á skipasmíðastöðvum verið hröð. Reistar hafi verið nýjar og nútímalegar skipasmíðastöðvar. Þær séu nú orðinn valkostur fyrir aðrar þjóðir og bjóði upp á svipuð verð og boðist hafi t.a.m. í Tyrklandi.

Hann segir að Knarr sé að undirbúa enn frekari landvinninga því víða um heim sé mikil endurnýjunarþörf. „Þar eigum við fullt erindi með okkar önnun og lausnir. Við bjóðum upp á mjög breiða línu skipa og afskastamikinn fiskvinnslubúnað og annan tæknibúnað sem fyrirtækin innan Knarr samsteypunnar hafa hannað og þróað.“