Íslenska frumkvöðlafyrirtækið Study Cake samanstendur af þremur ungum mönnum – þeim Kjartani Þórissyni, Herði Guðmundssyni og Kristjáni Inga Geirssyni. Sprotafyrirtæki þeirra miðar að því að skapa grundvöll fyrir foreldra og börn til þess að gera lestur bóka skemmtilegri.

Study Cake virkar þannig að eftir að barnið les kafla í bók getur það opnað Study Cake forritlinginn og svarað spurningum um kaflann sem það hafði lokið við. Bókinni er snúið upp í skemmtilegan spurningaleik, þar sem spurt er um staðreyndir úr sögunni sem og álitsspurningar, sem gefa lesandanum betri sýn á söguþráðinn og eigin skoðanir á ritverkinu.

Fyrir hverja spurningu sem rétt er svarað fást stig, og stigin safnast saman í það sem Study Cake kallar „heilasellur“. Fyrir heilasellurnar vinna börnin sér inn raunheimaverðlaun á borð við ísbíltúr, bíókvöld með foreldrunum, eða hvað sem þeim fullorðnu geta látið sér detta í hug.

Vilja efla læsi á heimsvísu

Kjartan Þórisson, framkvæmdastjóri Study Cake, segir mikilvægt að sporna við því að ungt fólk lesi sífellt minna og minna. „Við viljum leysa þetta vandamál sem minnkandi lestur er. Í bókum eru engin „hashtögg“ eða „retweet“ en það er einmitt þar sem við komum inn.“

Study Cake telur snjallsímavæðinguna hins vegar ekki vera af illum meiði – þvert á móti sé hún tækifæri til að samtvinna tæknina við hið hefðbundna lestrarform. Með því að gera lesturinn að hluta til stafrænan verða bækurnar um leið margfalt áhugaverðari fyrir unga fólkinu.

Fleiri tugir bóka hafa þegar verið unnir og settir upp í kerfi Study Cake. Stofnendurnir sömdu snemma við útgáfufyrirtæki um að fá að vinna spurningar úr bókum þeirra. Meðal vinsælla titla má nefna Mamma Klikk eftir Gunnar Helgason, Risaeðlur í Reykjavík eftir Ævar Þór Benediktsson og Leyndardómur erfingjans eftir Guðna Líndal Benediktsson.

„Snemma á ferlinu náðum við saman hópi fólks sem hafði yndi af lestri, og buðum því að fá greitt fyrir að lesa,“ segir Hörður Guðmundsson, fjármálastjóri Study Cake. „Það gekk hratt fyrir sig að vinna bækurnar og gera þær nothæfar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .