Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu og hverfa til annarra starfa á nýjum vettvangi.

Kolbeinn leiddi sameiningu hagsmunasamtaka innan sjávarútvegsins og varð fyrsti framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem stofnuð voru 31. október 2014.

Kolbeinn er lögfræðingur að mennt. Hann starfaði um árabil í sjávarútvegsráðuneytinu sem skrifstofustjóri og síðar sem fulltrúi þess í Brussel. Hann var lögfræðingur hjá Kaupþingi og framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings.

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, mun stýra skrifstofu samtakanna þar til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn.