Það kom Samkeppniseftirlitinu á óvart að einungis eitt af þremur stærstu olíufélögunum skilaði inn tilboði í sölu á eldsneyti til útgerða og smábátasjómanna.

Útboðið sem um ræðir varðaði sölu á um 27.500 tonnum af eldsneyti, sem nemur 18% af allri eldsneytissölu til útgerðainnar. Af þremur stærstu olíufyrirtækjunum skilaði einungis Skeljungur inn tilboði, N1 og Olís skiluðu ekki inn tilboði. Atlantsolía skilaði einnig inn tilboði en Skeljungur tryggði sér viðskiptin á seinni part síðasta árs. Ástæðurnar sem N1 og Olís gáfu voru annars vegar að útboðsskilmálar hefði verið óaðgengilegir fyrir margra hluta sakir og hins vegar að ekki kæmi til greina að greiða millilið vegna viðskiptanna, en Sjávarkaup hf. annaðist bæði útboðin.

Samkeppni virtist vera mest

Í frummatsskýrslu um eldsneytismarkaðinn sem kom út í nóvember sl. þá sagði Samkeppniseftirlitið að meiri samkeppni virtist ríkja á markaði fyrir sölu á eldsneyti til fyrirtækja en einstaklinga. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir við Fréttablaðið að þetta hafi komið á óvart í ljósi þeirrar niðurstöðu. Ef að það hafi átt sér stað einhver samskipti milli félaganna sé það alvarlegt mál, segir Páll, eftirlitið hafi þó engar upplýsingar um að það hafi verið gert. Páll segir einnig að ákvörðun um hvort hafin verði rannsókn á málinu verði tekin þegar eftirlitið hafi fengið fram stjónarmið við frummatsskýrslu eftirlitsins.