Mint Solutions hefur haslað sér völl sem framleiðandi á lyfjaöryggislausninni MedEye, sem nú þegar er notuð af stórum hluta hollenskra sjúkrahúsa og er á leiðinni í notkun í Belgíu og Hollandi.

Um 20 starfsmenn starfa hjá Mint Solutions í dag en fyrirtækið var stofnað árið 2010. Tæplega helmingur starfar á Íslandi þar sem nær öll þróunarvinna fyrirtækisins fer fram. Ríflega helmingur starfsfólksins starfar á skrifstofum fyrirtækisins í Hollandi, sem er stærsti markaður Mint Solutions. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í félaginu tveimur árum eftir stofnun og þá hefur Tækniþróunarsjóður veitt fyrirtækinu styrki. Helstu hluthafar í Mint Solutions eru LSP, Seventure Partners og BOM Capital, ásamt minni einkafjárfestum, stofnendum og starfsfólki.

Gauti Reynisson, forstjóri Mint Solutions, segir reyndar að stefnt sé að því að breyta nafni fyrirtækisins. „Við erum að fara að breyta nafninu á fyrirtækinu á þessu ári. Það er bara hérna á Íslandi sem við erum þekkt sem Mint Solutions, en allir aðrir þekkja okkur undir nafni vörunnar, MedEye.“

Mistök verða í 20% tilfella

MedEye er hugbúnaður og vélbúnaður sem er settur upp á sjúkrahúsum til að aðstoða hjúkrunarfræðinga við að gefa rétt lyf í réttu magni. „Um 20% af tíma hjúkrunarfræðinga fer í lyfjagjafir og á þessu sviði eru gerð mjög mörg mistök. Það er eðlilegt, enda eru lyfjagjafir gríðarlega margar og því óumflýjanlegt að mistök verði. Þau geta bæði orðið við lyfjagjöfina sjálfa, en einnig ofar í keðjunni, til dæmis við afgreiðslu í apótekinu. Hjúkrunarfræðingurinn þarf því að passa upp á að sjúklingurinn fái rétt lyf, en einnig að reyna að stöðva þau mistök sem þegar hafa orðið. Rannsóknir hafa sýnt fram á að í um 20% af lyfjagjöfum á sjúkrahúsum verða mistök. Annað hvort eru sjúklingar að fá vitlaus lyf, rétt lyf í röngum skömmtum, eða fá lyfin á röngum tíma.“

Gauti segir að mjög auðvelt sé að sjá hvað búið er að koma í veg fyrir mörg mistök með notkun MedEye. „Við eigum myndir af öllum tilfellum þar sem mistök hefðu orðið, vegna rangrar lyfjagjafar eða vegna þess að skammturinn er rangur. Á tuttugu sjúkrarúma deild erum við að stoppa um það bil 2-4 slík mistök á dag. Það er alveg í samræmi við það sem rannsóknir hafa sýnt og er ekki til merkis um að það sé eitthvað að hjá sjúkrahúsunum. Í heildina höfum við á síðustu tólf mánuðum líklega stöðvað um 5.000 lyfjamistök þar sem til er mynd og um 30.000 mistök í heildina. Þegar sjúkrahússtjórnendur sjá þessa tölfræði eftir að búið er að nota MedEye í aðeins nokkra daga er mjög erfitt fyrir þá að hætta að nota tækið.

Nánar er fjallað um Mint Solutions og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð .