*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 11. september 2016 16:05

Komið á Bretlandsmarkað

Fyrirtækið Mint Solutions hefur samið við háskólasjúkrahúsið í Newcastle og stefnir á Bandaríkjamarkað.

Trausti Hafliðason
Aðsend mynd

Íslensk-hollenska hátæknifyrirtækið Mint Solutions tilkynnti um mánaðamótin að hópur fjárfesta hefði lagt 650 milljónir króna í reksturinn, eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins. Fjármunirnir verða nýttir til að koma lyfjaöryggiskerfinu MedEye á markað í Bretlandi.

MedEye er hannað fyrir sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir með það markmiði koma í veg fyrir rangar lyfjagjafir. Það er einfalt í notkun. Hjúkrunarfræðingar skanna öll lyf sjúklinga, rétt áður en þau eru gefin, og tryggja þannig að lyfjagjöfin sé í samræmi við lyfseðil og fyrirmæli lækna.

Gauti Þór Reynisson framkvæmdastjóri segir að þegar hafi verið samið við þrjú sjúkrahús í Bretlandi.

„Þegar við lögðum af stað með þetta fyrirtæki þá var langtímamarkmiðið að gera þetta í skrefum," segir  Gauti Þór í samtali við Viðskiptablaðið. „Fyrsta skrefið var að klára vöruna, næsta að koma kerfinu á sjúkrahús og núna erum við kominn í þann fasa að fara inn á nýja markaði. Þessi fjárfesting mun gera okkur kleift að fara inn á Bretlandsmarkað og elliheimila-markað. Einnig erum við að þreifa fyrir okkur í Bandaríkjunum en sókn á þann markað verður enn eitt skrefið í okkar vegferð. Við erum smám saman að alþjóðavæða vöruna."

Gauti Þór segir að bresk sjúkrahús hafi sýnt MedEye mikinn áhuga.

„Í rauninni erum við komin með þrjá kúnna þar. Eitt af þeim er háskólasjúkrahúsið í Newcastle. Þetta ferli tekur mjög langan tíma hjá sjúkrahúsum og sem dæmi erum við búin að vera að vinna í Bretlandi síðustu tvö ár. Samþætting kerfa er flókin og tekur tíma, sem er eðlilegt þegar verið er að innleiða kerfi sem snýr að lyfjagjöfum. Eftir eitt til tvö ár á ég von á að Bretlandsmarkaður verði komin á sama stað og Hollandsmarkaður en í dag eigum við í viðræðum við um 25 til 30% af öllum sjúkrahúsum í Hollandi."

Reyna að sannfæra Landspítalann

Spurður hvernig staðan sé í þessum málum hér á landi svarar Gauti Þór: "Það eru náttúrlega ekki mörg sjúkrahús á Íslandi og tölvukerfin eru kannski ekki í fremstu röð. Við höfum talað við forsvarsmenn Landspítalans af og til á síðustu árum. Það er ekki eins og þeir vilji ekki bæta lyfjaöryggið en þeir eru kannski að vinna í öðrum verkefnum. Við erum að reyna að sannfæra forsvarsmenn Landspítalans að prófa allavega að setja kerfið upp. Auðvitað kostar þetta peninga. Ef við miðum við 200 til 300 rúma sjúkrahús þá kostar þetta svipað mikið og eitt stöðugildi hjúkrunarfræðings.

Í Hollandi hafa sjúkrahúsin í raun sparað á því að taka upp okkar kerfi og í leiðinni komið í veg fyrir þúsundir rangra lyfjagjafa. Með því að fara yfir gögn frá einu sjúkrahúsi þar í landi höfum við séð að kerfið leiðrétti yfir þúsund villur á einu ári og þá er ég að tala um að kerfið benti að að verið væri að gefa rangt lyf og eða rangan skammt."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.