Stærsta leigufélag landsins, Heimavellir, hefur vaxið hratt frá stofnun. Efnahagsreikningur félagsins fjórfaldaðist að stærð í fyrra vegna sameininga við smærri félög og jukust leigutekjur ríflega. Framkvæmdastjóri Heimavalla segir félagið nú vera í ákjósanlegri stærð, en að stefnt sé að því að bæta fleiri íbúðum á höfuðborgarsvæðinu í eignasafnið. Félagið vinnur að því að lækka fjármagnsgjöld og stefnir enn á skráningu á hlutabréfamarkað á síðasta fjórðungi þessa árs.

Leigutekjur munu tvöfaldast

Heimavellir fjórfaldaðist að stærð á milli áranna 2015 og 2016 samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2016. Eignir samstæðunnar jukust úr 10,4 milljörðum króna í 43,3 milljarða. Í ársbyrjun 2016 voru 445 leiguíbúðir í rekstri hjá félaginu en í lok ársins voru þær 1.714. Þá keypti félagið á síðasta ári 308 nýjar íbúðir í byggingu og eru nú 250 í byggingu, m.a. við Tangabryggju í Bryggjuhverfinu, á Völlunum í Hafnarfirði og í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ.

Samhliða þessum vexti jukust leigutekjur Heimavalla úr 512,6 milljónum í 1,5 milljarða. Hagnaður félagsins nam 2,2 milljörðum í fyrra borið saman við 63,2 milljónir árið 2015. Matsbreyting fjárfestingareigna nam 3,1 milljarði króna.

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, segir sameiningar félagsins við smærri félög á markaði endurspeglast í rekstrarniðurstöðu síðasta árs.

„Frá stofnun hefur félagið stækkað að mestu leyti með því að sameinast smærri leigufélögum á markaðnum. Í fyrra tókum við m.a. yfir 187 íbúðir á Akureyri, 66 á Reyðarfirði, 40 á Egilsstöðum og um 800 í Reykjanesbæ. Þessar sameiningar endurspeglast í rekstrartölunum í fyrra,“ segir Guðbrandur. Segist hann gera ráð fyrir því að veltan muni tvöfaldast í ár og verða í kringum 3 milljarðar vegna sameininga síðasta árs og vegna kaupa á nýjum íbúðum.

Sópa ekki upp íbúðum

Guðbrandur segir Heimavelli ekki vera að kaupa upp íbúðir og stuðla að hækkandi fasteignaverði.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fasteignir, sem fylgdi síðasta Viðskiptablaði. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .