Jón S. von Tetzchner var lengi forstjóri Opera og undir hans stjórn óx fyrirtækið hratt, en starfsmenn þess eru nú um 500 talsins. Hann var þekktur fyrir áhugaverðar markaðsbrellur meðan hann stýrði fyrirtækinu. Árið 2005 lýsti hann því t.d. yfir að ef meira en ein milljón manna næði sér í nýjustu útgáfuna af Opera á innan við fjórum dögum myndi hann synda frá Noregi til Bandaríkjanna. Markmiðinu var náð og nokkrum dögum síðar var gamansamri „sundtilraun“ hans lýst á vefsíðu Opera, en vart þarf að taka það fram að hann náði ekki á austurströnd Bandaríkjanna.

Í janúar 2010 lét hann af störfum sem forstjóri Opera en á þeim tíma var hann samt sagður ætla að vinna í fullu starfi sem ráðgjafi hjá fyrirtækinu. Það entist hins vegar ekki lengi því í júní 2011 sleit hann tengslin við fyrirtækið sem hann hafði stofnað sextán árum fyrr. Við það tækifæri sendi hann frá sér tilkynningu þar sem hann sagði að þáverandi stjórn og stjórnendur fyrirtækisins hefðu ekki sömu sýn á framtíð fyrirtækisins og hann. Sagði hann að stjórnin og stjórnendurnir einblíndu um of á ársfjórðungsuppgjör í stað þess að horfa lengra fram á veginn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að nofan.