Frystitogarinn Örfirisey RE kom til hafnar í Reykjavík að kvöldi 10. ágúst sl. eftir velheppnaða veiðiferð. Líkt og svo oft áður var Trausti Egilsson skipstjóri í veiðiferðinni en þetta var hans síðasti túr fyrir HB Granda. Að baki er sjómennskuferill sem spannar hálfan fimmta áratug. Trausti hefur reynst farsæll skipstjóri og það verður sjónarsviptir af þessum hógværa og vinsæla Súgfirðingi nú þegar hann hefur ákveðið að setjast í helgan stein, segir á heimasíðu HB Granda.

,,Ég held að þetta verði að teljast ágætur lokatúr. Við fórum víða og aflinn var 866 tonn af fiski upp úr sjó og aflaverðmætið var áætlað 248 milljónir króna,“ segir Trausti en aflinn var töluvert blandaður; karfi, ufsi, ýsa og grálúða og svo einhverjir þorsksporðar með. Veiðarnar voru stundaðar frá Fjöllunum í suðri norður á Halamið með viðkomu á Látragrunni og í Víkurálnum. Strax að lokinni löndun í Reykjavík sigldi Trausti skipinu norður til Akureyrar þar sem það verður í þriggja vikna slipp.

Síðustu árin hefur Trausti verið skipstjóri á móti Símoni Jónssyni sem áður var fyrsti stýrimaður hjá Trausta. Nú þegar Trausti fer í land tekur Ævar Jóhannesson við sem skipstjóri á móti Símoni en Ævar hefur verið fyrsti stýrimaður á Höfrungi III AK.

Sjá nánar viðtal við Trausta um sjómannsferilinn HÉR.